Ragna og Helgi badmintonfólk ársins

Stjórn Badmintonsambands Íslands hefur valið þau Rögnu Ingólfsdóttur og Helga Jóhannesson badmintonfólk ársins 2010. Þau Ragna og Helgi fá viðurkenningu frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands þann 5. janúar 2011 ásamt íþróttafólki annarra íþróttagreina. Við sama tækifæri munu Samtök Íþróttafréttamanna krýna Íþróttamann ársins.

Iceland International 2010Iceland International 2010

Ragna og Helgi urðu bæði Íslandsmeistarar í einliða- og tvíliðaleik á árinu ásamt því að standa sig vel í alþjóðlegum keppnum. Eftirfarandi er stutt ágrip á helstu afrekum badmintonfólks ársins 2010.

Badmintonmaður ársins 2010
Helgi Jóhannesson f. 18. nóvember 1982

Badmintonmaður ársins 2010 er Helgi Jóhannesson úr Tennis- og badmintonfélagi Reykjavíkur.

Helgi varð Íslandsmeistari í einliða- og tvíliðaleik karla í badminton í mars sl. Hann varð einnig í fyrsta sæti í einliðaleik karla á Meistaramóti TBR, Óskarsmóti KR og á Meistaramóti Badmintonfélags Hafnarfjarðar. Helgi varð stigahæstur í Stjörnumótaröð BSÍ.
Helgi er í A-landsliðinu í badminton. Helgi keppti með landsliðinu fyrir Íslands hönd á Evrópumótinu karlalandsliða í badminton í Póllandi í febrúar og á Evrópumóti einstaklinga í Manchester í apríl. Helgi keppti með liði Randers í dönsku deildinni fram á vorið ásamt því að taka þátt í alþjóðlegum mótum.

 

Ragna og Helgi badmintonfólk ársins 2010


Badmintonkona ársins 2010
Ragna Ingólfsdóttir f. 22. febrúar 1983


Badmintonkona ársins 2010 er Ragna Ingólfsdóttir úr Tennis- og badmintonfélagi Reykjavíkur.
Ragna er langfremsta badmintonkona landsins. Hún varð tvöfaldur Íslandsmeistari í badminton í mars síðastliðnum, í einliðaleik og í tvíliðaleik. Alls hefur hún unnið Íslandsmeistaratitilinn í einliðaleik sjö sinnum. Þá hefur hún unnið öll þau mót sem hún hefur tekið þátt í hérlendis á árinu. Ragna er í A-landsliðinu í badminton og hefur keppt með landsliðinu fyrir Íslands hönd á Evrópumóti kvennalandsliða í badminton í Póllandi í febrúar og á Evrópukeppni einstaklinga í Englandi í apríl. Ragna tekur að meðaltali þátt í einu alþjóðlegu móti í mánuði til að safna stigum á heimslistanum og stefnir hún á að komast á Ólympíuleikana í London árið 2012. Hún hefur unnið til verðlauna á alþjóðlegum mótum og vann til að mynda Iceland International mótið nú í nóvember en það er fjórða árið sem hún vinnur þetta mót. Hún komst í október í átta manna úrslit á geysilega sterku móti í Hollandi sem gaf henni 2.750 stig á heimslistanum og er það mesti stigafjöldi sem Ragna hefur fengið í einu móti. Þá varð Ragna í 3. - 4. sæti á alþjóðlegu móti í Kýpur í október. Ragna var þann 20. desember í 73. sæti heimslistans.
Skrifađ 20. desember, 2010
mg