Styrktaraðilar BSÍ

Næstu viðburðir

9 klukkustundir, 34 mínútur
6. mars 2015
7 dagar, 11 klukkustundir
13. mars 2015
8 dagar, 2 klukkustundir
14. mars 2015
14 dagar, 11 klukkustundir
20. mars 2015
15 dagar, 5 klukkustundir
21. mars 2015
4. mars, 2015 - mg

100 dagar í Evrópuleikana

Fyrstu Evrópuleikarnir fara fram í Azerbajan dagana 12. - 28. júní næstkomandi. Í dag eru 100 dagar til leikanna. Á næstu dögum og vikum kemur í ljós hvaða íþróttamenn og úr hvaða íþróttagreinum hljóta þátttökurétt á þessum fyrstu Evrópuleikum. „Fyrstu Evrópuleikarnir verða án efa glæsilegur viðburður. Samband evrópskra Ólympíunefnda hefur unnið mikið starf á stuttum tíma og gestgjafar hafa byggt stórglæsileg mannvirki fyrir þennan viðburð" segir Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. „Með þessum leikum eignast Evrópa sína álfuleika, líkt og aðrar heimsálfur, og í framtíðinni verður þessi viðburður án efa vettvangur besta íþróttafólks Evrópu. Nú þegar 100 dagar eru í að leikarnir verða að veruleika ber að hrósa EOC og gestgjöfunum í Azerbaijan fyrir að hafa ýtt þessu verkefni úr vör og búa þannig til íþróttaviðburð sem á eftir að skipa sér sess með þeim stærstu í heimi." „Við bindum vonir við að eiga um 15 íslenska keppendur á leikunum, en nú þegar hafa 10 keppendur tryggt sér keppnisrétt" segir Andri Stefánsson, sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ. „Undirbúningur okkar íþróttamanna er hafinn fyrir löngu og fyrir suma þeirra verða þessir leikar hluti af enn stærra verkefni sem er að tryggja sér keppnisrétt á Ólympíuleikana í Ríó á næsta ári. Ekki er langt síðan Evrópumeistarmótið í júdó varð hluti af leikunum í Baku og mun það tryggja að bestu júdómenn Evrópu verði á meðal keppenda. Í þeirri grein, sem og mörgum öðrum, er það staðan á heimslista nú á vormánuðum sem tryggir keppnisréttinn á leikunum og það er okkar von að íslenskt íþróttafólk verði á réttum stöðum á þeim listum." Staðreyndir Ákveðið var á aðalfundi evrópskra ólympíunefnda í desember árið 2012 að halda leikana í Baku. Keppni stendur yfir í 17 daga og búist er við meira en 6000 íþróttamönnum frá Ólympíuþjóðum Evrópu. Keppt verður í 20 íþróttagreinum, þar á meðal í greinum sem ekki hefur verið keppt í áður á stórmóti sem þessu eins og 3x3 körfuknattleik, strandfótbolta, karate og sambó. 

Í tólf íþróttagreinum geta keppendur tryggt sig á Ólympíuleikana í Ríó 2016.

18 íþróttamannvirki verða notuð á leikunum, þar á meðal nýleg mannvirki sem hýsa fimleika, BMX, sundgreinar og skotíþróttir. Byggður var 68.000 sæta völlur fyrir frjálsíþróttir og setningar- og lokahátíð.

Samtals verða veittir 253 verðlaunapeningar.

Í þorpi íþróttafólks eru 1042 íbúðir og 7351 rúm.

Gert er ráð fyrir um 80.000 máltíðum í einu stærsta eldhúsi Evrópu.

Til að koma þátttakendum á milli staða meðan á

Evrópuleikunum stendur þarf að nota 330 rútur og 1970 bílstjóra sem keyra meira en 12 milljón km.

Frekari upplýsingar má finna á http://baku2015.org/en/

Samkvæmt febrúar "dummie"lista frá Evrópska badmintonsambandinu þá var einn Íslendingur, Kári Gunnarsson, með þátttökurétt á badmintonleikunum. En evrópska badmintonsambandið hefur gefið út lista mánaðarlega um hverjir eru með þátttökurétt á hverjum tíma. Heimslistinn 26. mars segir svo endanlega til um hverjir hljóta þátttökurétt á Evrópuleikunum.

4. mars, 2015 - mg

Íslandsmót unglinga er um helgina í TBR

Íslandsmót unglinga verður í TBR húsunum við Gnoðarvog um helgina. TBR heldur mótið þetta árið í samstarfi við Badmintonsamband Íslands. Mótið hefst á laugardaginn, 7. mars, klukkan 9 með leikjum í fyrstu umferð í tvenndarleik í flokkum U13, U15, U17 og U19. Spilað verður fram í undanúrslit á laugardaginn en áætluð lok dagsins er um klukkan 17. Keppendur eru 193 talsins frá 10 félögum, Aftureldingu, BH, Hamri, ÍA, KR, Samherjum, TBR, TBS, UMFS og UMF Þór. Spilaðir verða 389 leikir um helgina. Mótsstjóri er Róbert Henn og mótsstjórn skipa Árni Gestur Sigfússon, Margrét Gunnarsdóttir, Sigfús Ægir Árnason og Þorkell Ingi Eriksson. Á sunnudeginum hefst keppni klukkan 9 með undanúrslitaleikjum í einliðaleik. Flokkur U11 hefur keppni klukkan 11:30. Áætluð mótslok eru klukkan 16. Smellið hér til að sjá niðurröðun og tímasetningar mótsins.  Athugið að tímasetningar geta breyst og mótið verður keyrt áfram eins og hægt er. Prúðasta liðið fær bikar í lok mótsins.

23. febrúar, 2015 - mg

Brøndby Strand í fyrsta sæti umspilsins

Brøndby Strand, lið Magnúsar Inga Helgasonar í Danmerkurseríunni, spilaði annan leik sinn í umspilinu um að komast upp í þriðju deild um helgina. Liðið mætti Gladsaxe-Søb. og vann 8-5. Magnús lék ekki fyrir lið sitt í þessum leik. Liðsmenn Brøndby Strand unnu annan tvenndarleik, annan og þriðja einliðaleik karla, báða tvíliðaleiki kvenna og alla tvíliðaleiki karla. Smellið hér til að sjá fleiri úrslit í viðureign Brøndby Strand og Gladsaxe-Søb. Brøndby Strand er nú í sjötta sæti í umspilinu. Smellið hér til að sjá stöðuna í umspilinu um að komast upp í þriðju deild. Næsti leikur í umspilinu er laugardaginn 7. mars gegn Næstved.

23. febrúar, 2015 - mg

KBK vann Greve 3 og er nú í þriðja sæti

KBK Kbh., liða Kára Gunnarssonar í dönsku þriðju deildinni, spilaði leik í umspili um hvaða lið komast upp í aðra deild um helgina gegn Greve 3 en liðið vann örugglega 10-3. Kári lék fyrsta einliðaleik og annan tvíliðaleik karla fyrir lið sitt. Einliðaleikinn lék hann gegn Christoffer Elbrønd og vann 21-10 og 21-9. Tvíliðaleikinn lék hann með Mikkel Kærsgaard Henriksen og þeir unnu Christian Skov Rasmussen og Anders Holm 21-10 og 21-13. KBK vann einnig alla einliðaleiki karla, báða tvenndarleikina, fyrsta tvíliðaleik kvenna og alla tvíliðaleiki karla. Smellið hér til að sjá fleiri úrslit í viðureign KBK og Greve 3. KBK er nú í þriðja sæti umspilsins. Smellið hér til að sjá stöðuna í umspilinu um að komast í aðra deild. Næsti leikur KBK Kbh. er laugardaginn 7. mars gegn Solrød Strand.

23. febrúar, 2015 - mg

Taastrup Elite vann Esbjerg ESG

Taastrup Elite, lið Drífu Harðardóttur í dönsku annarri deildinni, spilaði gegn Esbjerg ESG um helgina í umspili um hvaða lið falla í þriðju deild í gær. Taastrup Elite vann 8-5. Drífa lék annan tvenndarleik og fyrsta tvíliðaleik kvenna fyrir lið sitt. Tvenndarleikinn lék hún með Per Wedel Gerzymisch gegn Dennis Holm Hansen og Danica Bolos. Drífa og Gerzymisch unnu 21-16 og 21-14. Tvíliðaleikinn lék hún með Katrine M Hansen og þær töpuðu eftir oddalotu fyrir Trine Christiansen og Laura Vana 23-21, 13-21 og 11-21. Taastrup Elite vann einnig alla fjóra einliðaleiki karla, annan tvíliðaleik kvenna og annan og þriðja tvíliðaleiki karla. Smellið hér til að sjá fleiri úrslit Taastrup Elite og Esbjerg ESG. Smellið hér til að sjá stöðuna í umspilinu en liðið er nú í fimmta sæti umspilsins. Næsti leikur í umspilinu er laugardaginn 7. mars gegn Horsens.