Stelpurnar í úrslitum á morgun

Undanúrslitum á alþjóðlega badmintonmótinu Iceland Express International er nú lokið. Sex íslenskir leikmenn komust í undanúrslit; Tinna Helgadóttir og Ragna Ingólfsdóttir í einliðaleik, Magnús Ingi Helgason og Tryggvi Nielsen í tvíliðaleik og Ragna með Katrínu Atladóttir í tvíliðaleik og Tinna með Söru Jónsdóttur einnig í tvíliðaleik. Vissulega frábær árangur hjá okkar fólki að komast svona langt í þessu sterka móti.

Ragna sigraði örugglega Kati Tolmoff frá Eistlandi í undanúrslitunum 21-14 og 21-5. Glæsilegur sigur hjá Rögnu á þessum sterka leikmanni sem er númer 45 á heimslistanum. Tinna náði hinsvegar ekki að fylgja eftir velgengni sinni í átta liða úrslitunum og beið lægri hlut fyrir dönsku stúlkunni Trine Niemeier 21-10 og 21-8. Ragna leikur því í úrslitum á morgun gegn Trine.

Í tvíliðaleik karla mættu Magnús Ingi og Tryggvi Dönunum Peter Hasbak og Jonas Glyager Jensen. Fyrsta lotan var mjög jöfn og töpuðu íslensku strákarnir naumlega 21-19. Í seinni lotunni höfðu Danirnir yfirhöndina og sigruðu 21-13.

Úrslitaleikurinn í tvíliðaleik kvenna á morgun verður al íslenskur. Bæði íslensku pörin sigruðu sína leiki í undanúrslitunum og leika því til úrslita á morgun. Þær Ragna og Katrín sigruðu dönsku stúlkurnar Karina Jörgensen og Liv Hjordt Hansen . Karina er núverandi Evrópumeistari unglinga og er því hér um mjög sterka leikmenn að ræða. Sara og Tinna sigruðu einnig danskar stúlkur í undanúrslitunum en það voru þær Julie Ryttov og Maria K. Thorberg sem lágu fyrir þeim 21-13 og 21-19.

Úrslitaleikirnir hefjast kl. 10.00 á morgun sunnudag og verða leiknir í eftirfarandi röð:

Tvenndarleikur
Peter Mörk/Trine Niemeier (DEN) vs. Jonas Glyager Jensen/Maria Kaaberböl Thorberg (DEN)

Einliðaleikur karla
Peter Koukal (CZE) vs. Marco Vasconcelos (POR)

Einliðaleikur kvenna
Trine Niemeier (DEN) vs. Ragna Ingólfsdóttir (ISL)

Tvíliðaleikur karla
Peter Hasbak/Jonas Glyager Jensen (DEN) vs. Kristoffer Stampe/Morten Spurr Madsen (DEN)

Tvíliðaleikur kvenna
Sara Jónsdóttir/Tinna Helgadóttir (ISL) vs. Katrín Atladóttir/Ragna Ingólfsdóttir (ISL)

Búast má við að úrslitum ljúki eigi síðar en um kl. 14 á morgun.

Úrslit dagsins má skoða með því að smella hér.

Skrifað 10. nóvember, 2007
ALS