Sextánliða úrslitum í tvíliðaleik lokið

Magnús Ingi Helgason og Tryggvi Nielsen áttu frábæran leik í sextánliðaúrslitum í tvíliðaleik karla á alþjóðlega badmintonmótinu Iceland Express International. Þeir sigruðu Danina Peter Mörk og Niklas Hoff í þremur lotum. Fyrstu lotunni töpuðu þeir Tryggvi og Magnús 15-21 en unnu næstu tvær sannfærandi 21-18 og 21-9. Tryggvi og Magnús eru eina íslenska tvíliðaleikspar karla sem komst áfram í átta liða úrslitin.

Í tvíliðaleik kvenna sigruðu þær Katrín Atladóttir og Ragna Ingólfsdóttir dönsku stúlkurnar Camilla Overgaard og Lotte Bonde örugglega í sextánliða úrslitum 21-13 og 21-17. Þrjú önnur íslensk pör eru komin áfram í tvíliðaleik kvenna en þau sátu öll hjá í sextán liða úrslitum.

Nú er í gangi sextánliða úrslit í einliðaleik karla en þar leika engir íslenskir leikmenn. Klukkan 19.20 hefjast sextánliða úrslit í einliðaleik kvenna en þar leika fimm íslenskar stúlkur.

Hægt er að skoða leiki dagsins með því að smella hér.

Skrifað 9. nóvember, 2007
ALS