Úrslit í undankeppni ÓL ungmenna í Danmörku

Á föstudaginn kepptu Nökkvi Rúnarsson og Elín Þóra Elíasdóttir í Undankeppni ólympíuleika ungmenna sem haldnir voru í Svendborg í Danmörku.

Keppt var í riðlum en Nökkvi og Elín lentu bæði í erfiðum riðlum. Nökkvi tapaði fyrsta leiknum sínum 3-21 og 4-21 gegn Lucas Claebout frá Frakklandi en Claebout var raðaður í fjórða sæti. Í öðrum leiknum bið Nökkvi lægri hlut fyrir Mikael Westerback frá Svíþjóð 8-21 og 5-21. Claebout endaði í þriðja sæti á mótinu og Westerback í því fjórða. Claebout sigraði Westerback 21-12 og 21-15.

Elín Þóra tapaði fyrsta leiknum sínum fyrir Özge Bayrak frá Tyrklandi 15-21 og 12-21. Elín spilaði seinni leikinn gegn Lene Clausen og tapaði 7-21 og 6-21. Bayrak endaði í níunda sæti eftir að hafa dottið út í 16 kvenna úrslitum en Clausen hafnaði í sjötta sæti.

Í einliðaleik karla sigraði Kasper Lehikoinen frá Finnlandi og í einliðaleik kvenna sigraði Fabienne Deprez frá Þýskalandi.

Níu Evrópulönd munu eiga fulltrúa á Ólympíuleikum ungmenna í Singapore en Frakkar eiga tvo fulltrúa.

Fulltrúar Evrópu verða auk vinningshafanna Daninn Flemming Quach, Frakkinn Lucas Claebout, Svíinn Mikael Westerback, Hollendingurinn Nick Fransman í einliðaleik karla og í kvennaflokki munu Carolina Marin frá Spáni, Englendingurinn Sarah Milne, Frakkinn Leo Palermo og Yelyzaveta Zharka frá Úkraínu taka þátt.

Kasper Lehikoinen mun eiga annasamt ár fyrir höndum en hann mun keppa á Evrópumótinu í Manchester á Englandi í apríl. Þá mun hann taka þátt í Heimsmeistaramóti ungmenna í Mexico og í ágúst tekur hann þátt í Ólympíuleikum ungmenna í Singapore. Í Svenborg sannaði hann að hann ere inn efnilegasti badmintonspilari heims eftir að hafa unnið Flemming Quach frá Danmörku.

Smellið hér til að sjá fleiri úrslit í undankeppni Ólympíuleika ungmenna.

Skrifađ 22. mars, 2010
mg