Helgi og Ragna keppa á Swedish International 2010

Helgi Jóhannesson og Ragna Ingólfsdóttir keppa nú á Alþjóðlega sænska mótinu, Swedish International 2010.

Helgi keppti í einliðaleik karla í gær í undankeppni mótsins á móti Ítalanum Taufiq Akbar Hidayat. Helgi tapaði leiknum 21-15 og 21-16 og komst því ekki inn í aðalmótið í einliðaleik karla.

Ragna keppti tvo einliðaleiki kvenna í gær. Fyrri leikurinn var gegn Linda Sloan frá Írlandi. Ragna vann leikinn 21-14 og 21-16. Seinni leikurinn var gegn Laura Vana frá Eistlandi. Ragna sigraði einnig þann leik, 21-19 og 21-10. Ragna er því komin inn í aðalkeppnina í einliðaleik kvenna og leikur gegn frönsku stúlkunni Perrine Lebuhanic í dag, föstudag.

Helgi og Ragna kepptu einnig tvo tvenndarleiki í gær, fimmtudag, í undankeppni mótsins. Fyrri leikurinn var gegn búlgurunum Peyo Boychinov og Dimitra Popstoikova. Helgi og Ragna unnu leikinn 21-12 og 22-20. Seinni leikinn, gegn svissneska parinu Florian Schmid og Sabrina Jaquet, sigruðu þau líka 21-13 og 23-21. Helgi og Ragna eru því komin áfram í aðalkeppni mótsins í tvenndarleik. Þau munu keppa við Þjóðverjann Tim Dettmann og Svíann Emelie Lennartsson í dag.

Til að sjá fleiri úrslit Swedish International smellið hér.

Skrifað 22. janúar, 2010
mg