Badmintonfólk ársins

Stjórn Badmintonsambands Íslands hefur valið þau Tinnu Helgadóttur og Helga Jóhannesson badmintonfólk ársins 2009. Þau Tinna og Helgi fá viðurkenningu frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands á morgun, 5. janúar, ásamt íþróttafólki annarra íþróttagreina. Við sama tækifæri munu Samtök Íþróttafréttamanna krýna Íþróttamann ársins.

Tinna HelgadóttirHelgi Jóhannesson

Tinna og Helgi urðu bæði Íslandsmeistarar í einliða- og tvíliðaleik á árinu ásamt því að standa sig vel í alþjóðlegri keppni. Tinna varð þrefaldur Íslandsmeistari á Meistaramóti Íslands 2009. Eftirfarandi er stutt ágrip á helstu afrekum badmintonfólks ársins 2009.

Badmintonmaður ársins 2009

Helgi Jóhannesson f. 18. nóvember 1982

Badmintonmaður ársins 2009 er Helgi Jóhannesson úr Tennis- og badmintonfélagi Reykjavíkur. Helgi varð Íslandsmeistari í einliða- og tvíliðaleik karla í badminton í mars sl. Hann varð einnig í fyrsta sæti í einliðaleik karla á Reykjavíkurmóti fullorðinna og á Meistaramóti Badmintonfélags Hafnarfjarðar. Helgi varð stigahæstur í Stjörnumótaröð BSÍ. Helgi var annar tveggja einstaklinga sem valinn var í Ólympíuhóp BSÍ. Hann stefnir ótrauður á að keppa á Ólympíuleikunum í London árið 2012 og sækir mánaðarlega á stórmót erlendis til að safna stigum á heimslistanum. Helgi spilar með danska annarrar deildar liðinu Randers sem hefur átt góðu gengi að fagna á árinu. Randers er í 2. sæti dömsku deildarinnar og fer því upp í fyrstu deild á næsta ári. Helgi er í A-landsliðinu í badminton. Helgi keppti með landsliðinu fyrir Íslands hönd á Evrópumótinu í badminton í Liverpool í febúar og á Heimsmeistaramóti landsliða í Kína í maí.  

Helgi Jóhannesson - Iceland InternationalTinna Helgadóttir

Badmintonkona ársins 2009

Tinna Helgadóttir f. 25. apríl 1984

Badmintonkona ársins 2009 er Tinna Helgadóttir sem spilar með Greve í Danmörku. Tinna varð þrefaldur Íslandsmeistari í badminton í mars síðastliðnum, í einliðaleik, tvíliðaleik og tvenndarleik. Hún varð einnig í 1. sæti á Meistaramóti TBR í upphafi ársins. Tinna hefur spilað með danska liðinu Greve á þessu ári. Hún er í aðalliði Greve og hefur verið að spila með og á móti mörgum sterkustu badmintonspilurum heims en Greve er á toppi dönsku úrvalsdeildarinnar. Tinna er í A-landsliðinu í badminton. Tinna hefur keppt með landsliðinu fyrir Íslands hönd á Evrópumótinu í badminton í Liverpool í febúar og á Heimsmeistaramóti landsliða í Kína í maí. Tinna hefur keppt á einu móti innan stjörnumótaraðar BSÍ á þessu keppnisári en það var Meistaramót TBR sem fram fór þann 2. janúar 2010. Hún sigraði þrefalt, í einliðaleik og tvíliðaleik kvenna og í tvenndarleik. 

Skrifað 4. janúar, 2010
mg