Ragna komin í úrslit

Íslandsmeistarinn Ragna Ingólfsdóttir er komin í úrslit á Opna Ungverska badmintonmótinu sem haldið er í Búdapest um helgina.

Í undanúrslitum sigraði hún tékknesku stúlkuna Martina Benesova 21-14 og 21-10. Ragna leikur til úrslita á morgun sunnudag gegn svissnesku stúlkunni Jeanine Cicognini. Jeanine er mjög sterk einliðaleiks kona og er um þessar mundir númer 55 á heimslistanum eða tveimur sætum neðar en Ragna. Það er því líklegt að hér verði um mjög jafna viðureign að ræða og mikil spurning um dagsform hjá stúlkunum tveimur. Miðað við hvað Ragna sigraði andstæðinga sína í átta liða úrslitum og undanúrslitum örugglega í dag og hvað hún fann sig vel í leikjunum má reikna með að hún sé í sínu allra besta formi þessa dagana.

Hægt er að fylgjast með mótinu með því að smella hér.

Skrifað 4. nóvember, 2007
ALS