BSÍ gefur ađildarfélögum mótaforrit

Á stjórnarfundi Badmintonsambands Íslands sunnudaginn 9. september síðastliðinn var ákveðið að gefa þeim aðildarfélögum sem eru með mót á mótaskrá BSÍ mótaforrit frá fyrirtækinu Visual Reality. Þetta er sama forrit og Badmintonsamband Íslands, Badmintonfélag Hafnarfjarðar og Badmintonsamband Evrópu hafa notað í nokkurn tíma með góðri raun.

Markmiðið með gjöfinni var að auðvelda forsvarsmönnum félaga skipulag og utanumhald móta. Auk þess gerir þessi hugbúnaður Badmintonsambandinu kleift að halda utan um styrkleikalista á auðveldari hátt þ.e. styrkleikalisti uppfærist sjálfkrafa á netinu ef öll félög nota kerfið. Síðast en ekki síst gerir notkun þessa hugbúnaðar keppendum, áhugamönnum og fjölmiðlum kleift að skoða á auðveldan hátt úrslit móta á einum stað á netinu.

BSÍ bauð auk þess uppá námskeið í notkun forritsins mánudaginn 17.september síðastliðinn. Mjög góð mæting var á námskeiðið en fulltrúar frá TBR, TBS, UMSB, Keflavík, Þór/Hamri og Akureyri komu og fengu leiðsögn í notkun hugbúnaðarins. Það voru þau Anna Lilja Sigurðardóttir starfsmaður BSÍ og Valdimar Þór Guðmundsson stjórnarmaður BSÍ sem sáu um kennsluna á námskeiðinu.

Heimasíða hugbúnaðarins með öllum nánari upplýsingum er www.tournamentsoftware.com.

Skrifađ 20. september, 2007
ALS