Ferđin til Kína gekk vel

Ferðalag íslenska landsliðsins til Kína gekk vel. Flugið frá London til Hong Kong tók 11 klukkustundir með góðri flugvél frá British Airways. Helgi og Freyja sváfu í 10 tíma í vélinni en aðrir í 5-6 tíma.

Veðrið er mjög gott, 31 stigs hiti og sól.

Hótelið er svo stórt að auðvelt er að villast í því, 999 herbergi, yfir 10 matsölustaðir, 5 stórar byggingar, 10 inngöngudyr, 2 andyri, lobbíið er jafnstórt og hús 2 í TBR! Að auki eru á hótelinu sundlaug, líkamsræktarstöð, borðtennisborð og tennisvellir. Gangarnir á milli hótelbygginganna eru mun lengri og breiðari en gangarnir í Smáralind.

Maturinn er fjölbreyttur og óvanalegur t.d. heilsteiktur kjúklingur með haus og háls, allskonar klær af fuglum, froskar, kolkrabbar, krossfiskar, þorskhausasúpa með hausunum uppúrstandandi úr súpuskálinni svo eitthvað sé nefnt.

Íslenska hópnum líður öllum vel og enginn er veikur en í hitanum eru fólk sveitt og það er drukkið mikið vatn.

Æfingahöllin er mjög góð og er með 35 badmintonvelli.

Keppnin hefst á sunnudaginn. Áfram Ísland!

Skrifađ 8. maí, 2009
mg