Rakel sigraði gegn pólverjum í einliðaleik kvenna á EM U19

Íslenska unglingalandsliðið spilaði í gær við Pólverja á Evrópumóti unglinga sem nú er haldið í Milan á Ítalíu. Okkar fólk tapaði leiknum 4 - 1. Sigurleikur okkar var í einliðaleik kvenna en Rakel Jóhannesdóttir sigraði pólsku stúlkuna Aneta Wojtkowska 21 - 19 og 21 - 19 í æsispennandi leik.

Fyrri lotuna leiddi sú pólska og staðan í hléi var 11 - 8. Rakel spilaði fantavel og komst yfir í stöðunni 13 - 12 og síðan var jafnt á nær öllum tölum og lauk henni sem áður sagði 21 - 19 fyrir okkar stúlku.
Í annarri lotu byrjaði sú pólska einnig betur en Rakel komst fyrst yfir í stöðunni 9 - 8 og staðan í leikhléi var 11 - 10 fyrir okkar stúlku. Rakel leiddi áfram en þó skildu aldrei meira en 2 stig að og var jafnt í stöðunni 18 - 18. Okkar kona hélt góðu spili og einbeitingu og sigraði aðra lotuna 21 -19 eins og áður sagði. Frábært spil hjá Rakel sem aðeins er 17 ára og hennar fyrsti sigur í einliðaleik á Evrópumóti.

Aðrir leikir liðsins gegn Póllandi töpuðust en Kári Gunnarsson spilaði einliðaleikinn fyrir okkar hönd og átti góðan leik á móti Adrian Dziolko en tapaði í tveimur lotum 17 - 21 og 19 - 21.

Í tvíliðaleik karla spiluðu þeir Kári Gunnarsson og Egill Guðlaugsson og töpuðu þeir í oddaleik gegn Jacek Kolumbajew og Patryk Szymoniak 14 - 21, 21 - 19 og 14 - 21.

Í tvíliðaleik kvenna spiluðu þær Sunna Runólfsdóttir og Rakel Jóhannesdóttir á móti Magdalena Galek og Katarzyna Macedonska og töpuðu 18 - 21 og 13 - 21.

Síðasta leik liðsins gegn pólverjum spiluðu Egill Guðlaugsson og Elín Þóra Elíasdóttir og töpuðu þau fyrstu lotunni naumlega eða 20 - 22 og önnur lotan fór 11- 21 fyrir pólska parinu.

Í dag spilaði liðið okkar á móti þjóðverjum og tapaði 5 - 0. Þjóðverjar eru með geysisterkt lið en Kári Gunnarsson átti góðan einliðaleik á móti Nikolaj Persson þar sem Kári sigraði fyrstu lotuna 21 - 15 en tapaði annarri lotunni 16 - 21 og þeirri þriðju naumlega eða 18 -21.

Á morgun spilar liðið gegn eistum og hefst leikurinn kl. 7 að íslenskum tíma. Fylgjast má með framvindu mála á http://www.tournamentsoftware.com/sport/matches.aspx?id=DB8204B5-1AD6-47A1-879C-EAC30EF478B5&d=20090405. Heimasíða Evrópumótsins er; http://www.eurojunior2009.org

Skrifað 4. apríl, 2009
SGB