Íslensku strákarnir úr í einliðaleik

Þeir Helgi Jóhannesson og Magnús Ingi Helgason eru báðir dottnir úr keppni einliðaleiks á alþjóðlega badmintonmótinu Swedish Internationals Stockholm.

Helgi beið lægri hlut fyrir Finnanum Aki Kananen í annari umferð undankeppni mótsins. Sigur Kananen var þó naumur 22-20 og 21-18. 

Magnús Ingi féll einnig út í annari umferð undankeppninnar. Hann varð að játa sig sigraðan fyrir Svíanum Kristian Karttunen í spennandi þriggja lotu leik. Fyrstu lotuna sigraði Karttunen örugglega 21-10, aðra lotuna sigraði Magnús Ingi 21-18 og í oddalotunni sigraði Karttunen naumlega 21-19. 

Á morgun hefst aðal keppni mótsins og þar munu íslensku strákarnir taka þátt í tvíliðaleik. Þeir mæta Hvítrússunum Aliaksei Konakh og Yauheni Yakauchuk kl. 13.45 að íslenskum tíma. Smellið hér til að fylgjast með gangi mála á Swedish Internationals Stockholm.

Magnús Ingi Helgason og Helgi Jóhannesson

Skrifað 22. janúar, 2009
ALS