Helgi og Magnús Ingi keppa í Svíþjóð

Alþjóðlega badmintonmótið Swedish Internationals Stockholm hefst á morgun. Á meðal keppenda eru þeir Helgi Jóhannesson og Magnús Ingi Helgason.

Á morgun fimmtudag verður leikin undankeppni mótsins í einliðaleik. Þar mætir Helgi Hollendingnum Rein Ridder og Magnús Ingi Þjóðverjanum Andreas Lindner. Í undankeppni einliðaleiksins keppast 64 keppendur um átta laus sæti í aðal mótinu sem hefst á föstudag. Til að komast uppúr undankeppninni þurfa leikmenn að sigra þrjá andstæðinga. Leikur Helga hefst kl. 8.00 að íslenskum tíma á morgun en leikur Magnúsar Inga verður kl. 9.50.

Íslensku strákarnir taka einnig þátt í tvíliðaleik á mótinu í Stokkhólmi. Í fyrstu umferð mæta þeir Hvítrússunum Aliaksei Konakh og Yauheni Yakauchuk. Bæði pörin eru á svipuðum slóðum á heimslista Alþjóða Badmintonsambandsins og má því búast við jöfnum og spennandi leik. Leikurinn fer fram á föstudag og hefst kl. 13.45 að íslenskum tíma.

Smellið hér til að skoða niðurröðun og tímasetningar Swedish Internationals Stockholm.

Magnús Ingi Helgason og Helgi Jóhannesson

Skrifað 21. janúar, 2009
ALS