Helgi úr í einliðaleik í Tallin

Íslandsmeistarinn Helgi Jóhannesson hefur lokið þátttöku sinni í einliðaleik á alþjóðlega badmintonmótinu Yonex Estonian International sem fram fer í Tallin þessa dagana. Helgi tók þátt í undankeppni mótsins í dag þar sem hann lék ásamt 55 öðrum leikmönnum um átta laus sæti í aðal keppni mótsins sem hefst á morgun. Helgi var þó ekki fjarri því að ná inní aðal mótið því hann sigraði tvo andstæðinga og tapaði nokkuð naumlega fyrir þeim þriðja í úrslitaleik um laust sæti.

Í fyrsta leik mætti Helgi Finnanum Jani Häkkinen og sigraði sannfærandi 21-6 og 21-13. Annar leikur Helga var aðeins strembnari en þar sigraði hann Indverjann Aditya Elango Abdul Raheem 22-20 og 21-10. Í úrslitaleik undankeppninnar mætti Helgi síðan Walesverjanum Raj Popat. Helgi var með forystuna lengst af í fyrri lotunni en missti hana svo og tapaði 21-17. Í seinni lotunni voru þeir Popat og Helgi jafnir framan af en svo stakk Popat af og sigraði 21-13.

Á morgun föstudag tekur Magnús Ingi Helgason þátt í einliðaleik á mótinu og þeir Helgi og Magnús Ingi leika saman í tvíliðaleik. Smellið hér til að skoða nánari tímasetningar og leikniðurröðun mótsins.

Helgi Jóhannesson og Árni Þór Hallgrímsson, landsliðsþjálfari.

Skrifað 15. janúar, 2009
ALS