Reykjavik International Games

Barna- og unglingameistaramót TBR sem fram fer helgina 16.-18.janúar næstkomandi verður annað árið í röð hluti af alþjóðlega íþróttamótinu Reykjavik International Games.

Badmintonkeppnin sjálf er nokkuð hefðbundin þar sem keppt er í U13-U19 flokkum unglinga. Í kringum keppnina eru hinsvegar nokkrir skemmtilegir viðburðir sem þátttakendur í öllum íþróttagreinum hafa aðgang að. Föstudaginn 16.janúar verður mótið sett með "Sundlaugadiskóteki" í Laugardalslaug kl.19.00 og á sunnudagskvöldinu 18.janúar verður lokahátíð í Laugardalshöll. Þá er þátttakendum badmintonkeppninnar boðið í kvöldvöku í TBR-húsinu laugardagskvöldið 17.janúar í tilefni af 70 ára afmæli TBR á dögunum.

Fjórir erlendir gestir frá KBK í Danmörku taka þátt í U19 flokknum. Í einliðaleik U19 flokksins verður leikið í riðlum en í öðrum flokkum verður hreinn útsláttur með aukaflokki.Tvíliða- og tvenndarleikur í öllum flokkum verður leikinn með hreinum útslætti.

Mótaboð og nánari upplýsingar um badmintonkeppnina má finna með því að smella hér. Einnig má finna ýmsar upplýsingar á heimasíðu mótsins www.rig.is.

Skrifað 7. janúar, 2009
ALS