Badmintonáriđ 2008

Við áramót er hefð að líta yfir árið sem er að líða og skoða helstu viðburði og afrek. Nóg hefur verið um að vera hjá badmintonfólki á árinu 2008 en stærsti viðburðurinn var án efa frábær árangur Rögnu Ingólfsdóttur að komast á Ólympíuleikana í Peking. Eftirfarandi er stutt ágrip á helstu viðburðum Badmintonsambandsins á árinu 2008.

Janúar

Íslenska U19 landsliðið lék vináttulandsleik við Noreg í Sandefjord og sigraði 5-4. Leikmennirnir tóku einnig þátt í opnu móti þar sem Una Harðardóttir, ÍA, stóð sig best og vann til silfurverðlauna í einliðaleik og varð í 3.-4.sæti í tvíliðaleik ásamt norskum meðspilara.

Ragna Ingólfsdóttir var valinn Íþróttamaður Reykjavíkur.

Ragna Ingólfsdóttir komst í 8-liða úrslit í einliðaleik kvenna á alþjóðlega badmintonmótinu Swedish International Stockholm. Magnús Ingi Helgason og Tinna Helgadóttir komust í 16-liða úrslit í tvenndarleik á sama móti.

Badmintonsambandið var með kynningu á Austurlandi. Íbúar á Seyðisfirði og Vopnafirði voru heimsóttir að þessu sinni.

Febrúar

Deildakeppni Badmintonsambands Íslands fór að venju fram í TBR-húsunum fyrstu helgina í febrúar. Mótið var fjölmennt en alls tóku 24 lið þátt í mótinu sem var fjölgun um fimm lið frá árinu áður. TBR-Öllarar urðu Íslandsmeistarar í meistaradeildinni en TBR-Geitungar sigruðu í A-deild og TBR-Púkar í B-deild.

Ragna Ingólfsdóttir komist á 8-liða úrslit á alþjóðlegum móti í Teheran í Íran.

Íslenska kvennalandsliðið í badminton varð í 2.sæti í sínum riðli á Evrópumótinu sem fram fór í Almere í Hollandi og komst ekki áfram í útsláttarkeppni mótsins. Þjóðverjar sigruðu í riðlinum en íslenska liðið sigraði bæði Wales og Ítalíu. Liðið endaði því í 8.-14.sæti mótsins. Íslenska karlalandsliðið varð í 3.sæti í sínum riðli á Evrópumótinu rétt á undan Tyrkjum og telst því í 16.-24.sæti yfir bestu karlalandslið í Evrópu. Rússar sigruðu riðilinn og Spánverjar urðu í öðru sæti.

Sigríður Guðbjörg Bjarnadóttir skrifaði undir tímamótasamning við SPRON um góðan stuðning bankans við starf sambandsins til ársins 2012.

Ragna Ingólfsdóttir varð í 3.-4.sæti á alþjóðlega badmintonmótinu Austrian International.

Mars

Íslandsmót unglinga fór fram í Íþróttahöllinni á Akureyri. Fjórir leikmenn náðu þeim frábæra árangri að verða þrefalldir Íslandsmeistarar en það voru þau Una Harðardóttir, ÍA, Kári Gunnarsson, TBR, María Árnadóttir, TBR, og Margrét Jóhannsdóttir, TBR.

Apríl

Meistaramót Íslands fór fram í TBR-húsunum við Gnoðarvog. Mótið var mjög fjölmennt en alls tóku 139 leikmenn þátt í mótinu sem var fjölgun um rúmlega 20% milli ára. Ragna Ingólfsdóttir og Helgi Jóhannesson urðu Íslandsmeistarar í einliðaleik. Ragna sigraði sjötta árið í röð en Helgi vann sinn þriðja titil á ferlinum. Katrín Atladóttir og Ragna Ingólfsdóttir sigruðu í tvíliðaleik kvenna og þeir Helgi Jóhannesson og Magnús Ingi Helgason í tvíliðaleik karla. Þá urðu systkinin Magnús Ingi og Tinna Helgabörn Íslandsmeistarar í tvenndarleik.

Íslenska landsliðið stóð sig frábærlega á Evrópumótinu í badminton sem fram fór í Herning. Liðið varð í 13.sæti á mótinu eftir sögulegan og langþráðan sigur á Finnum. 13.sætið tryggði Íslandi áframhaldandi veru á meðal A-þjóða Evrópu. Í einstaklingskeppni mótsins áttu íslensku leikmennirnir nokkra góða leiki en þau Helgi Jóhannesson og Tinna Helgadóttir stóðu sig best og komust í 16-liða úrslit í tvenndarleik.

Maí

Heimslisti Alþjóða Badmintonsambandsins þann 1.maí skar úr um það hvaða leikmenn hefðu unnið sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Peking í ágúst. Ragna Ingólfsdóttir var númer 53 á listanum og tryggði sér þar með sæti á leikunum.

Þing Badmintonsambandsins fór fram í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal. Nær enginn halli var á rekstri sambandsins þrátt fyrir mjög kostnaðarsamt ár. Þórhallur Einisson kom nýr í stjórn Badmintonsambandsins en Ingunn Gunnlaugsdóttir gaf ekki kost á sér til áframhaldandi starfa.

Stigahæstu leikmennirnir á Stjörnumótaröð Badmintonsambandsins voru verðlaunaðir á þingi BSÍ. Í meistaraflokki sigruðu þau Katrín Atladóttir, TBR, og Atli Jóhannesson, TBR, en í öðru sæti voru Tinna Helgadóttir, TBR, og Magnús Ingi Helgason,TBR. Una Harðardóttir, ÍA, og Kjartan Ágúst Valsson, BH, sigruðu í stigakeppni A-flokksins en í öðru sæti urðu Elín Þóra Elíasdóttir, TBR, og Róbert Þór Henn, ÍA.

Sigríður Guðbjörg Bjarnadóttir, formaður BSÍ, og Ása Pálsdóttir, framkvæmdastjóri BSÍ, sátu aðalfund BWF í Indónesíu fyrir Íslands hönd. Mikill þrýstingur var frá Badminton Europe að öll lönd sendu fulltrúa á fundinn vegna deilna sem voru í gangi innan hreyfingarinnar.

Júní

Íslandsmeistarar Tennis- og badmintonfélags Reykjavíkur tóku þátt í Evrópukeppni félagsliða í Moskuv í Rússlandi. Liðið varð í 4.sæti og síðasta sæti í sínum riðli og endaði í 9.-12.sæti á mótinu.

Tveir fulltrúar frá Badmintonsambandinu tóku þátt í Norrænni ráðstefnu á Laugarvatni. Öll Norðurlöndin sendu fulltrúa í ýmsum íþróttagreinum. Aðal umfjöllunarefni ráðstefnunnar voru „brottfall úr íþróttum" og „hvernig á að ná í og halda leiðtogum í barna og unglingastarfi".

Júlí

Evrópuskólinn fór fram í Varsjá í Póllandi. Þátttakendur fyrir Íslands hönd voru þau Ásta Ægisdóttir, TBR, Sunna Ösp Runólfsdóttir, TBR, Kristján Huldar Aðalsteinsson, ÍA, Pétur Hemmingsen, TBR, og Ragnar Harðarson, ÍA.

Ágúst

Ragna Ingólfsdóttir var þátttakandi á Ólympíuleikunum í Peking í Kína. Jónas Huang var með Rögnu í för sem þjálfari og Ása Pálsdóttir framkvæmdastjóri BSÍ sem flokkstjóri. Ragna varð að hætta keppni vegna meiðsla áður en hún gat lokið fyrsta leik sínum á mótinu gegn japönsku stúlkunni Eriko Hiriose. Ragna var að vonum svekt að ná ekki að ljúka keppni en stærsti sigurinn að komast á leikana stóð þó uppúr. Ragna er fjórði íslenski badmintonmaðurinn sem tekið hefur þátt í Ólympíuleikum.

Norrænu æfingabúðirnar fóru fram í Osló í Noregi. Kristinn Ingi Guðjónsson, BH, og Ólafur Örn Guðmundsson, BH, tóku þátt fyrir Íslands hönd ásamt þjálfaranum Vigni Sigurðssyni, TBR.

Badmintonsambandið hélt æfingabúðir fyrir keppnisfólk Badmintonfélags Akraness. Alls tóku leikmenn þátt í átta æfingum þar sem markmiðið var að komast vel af stað fyrir badmintonveturinn framundan.

September

Rúmlega þrjátíu leikmenn víðsvegar af að landinu tóku þátt í Badmintonskóla BSÍ fyrir 12-15 ára leikmenn í TBR húsunum. Fræðslustjóri BSÍ, Anna Lilja Sigurðardóttir, stjórnaði æfingum og fékk til liðs við sig leikmenn úr landsliðunum.

Ragna Ingólfsdóttir fór í aðgerð á hné þar sem gert var við slitið krossband og liðþófa. Aðgerðin heppnaðist vel og stefnir Ragna á að komast aftur í alþjóðlega keppni á árinu 2009.
Badmintonsambandið hélt þjálfaranámskeiðið Badmintonþjálfari 1A og tóku 22 þjálfarar frá átta félögum víðsvegar af landinu þátt.

Október

Broddi Kristjánsson varð í 2.sæti á Evrópumóti öldunga sem fram fór á Spáni. Broddi keppti í flokki 45-49 ára leikmanna.

Badmintonsambandið fór í nokkrar stuttar heimsóknir í Borgarnes þar sem bæði fullorðnir og börn fengu kennslu í badminton.

Helgi Jóhannesson og Magnús Ingi Helgason sigruðu í tvíliðaleik á tveimur alþjóðlegum mótum, einu í Slóvakíu og öðru á Kýpur. Þeir kepptu einnig í einliðaleik en náðu ekki eins góðum árangri þar.

Badmintonsambandið þurfti að skera mikið niður í rekstri vegna óvissu í efnahagsmálum landsins. Meðal annars var samningi við landsliðsþjálfarann, Árna Þór Hallgrímsson, var sagt upp og ákveðið að fella niður alþjóðlega mótið Iceland SPRON International.

Nóvember

Badmintonsambandið hélt opið mót í meistaraflokki, SPRON mótið, í stað alþjóðlega mótsins sem fella varð niður. Bræðurnir Helgi Jóhannesson og Atli Jóhannesson voru sigursælastir í karla flokki. Miriam Gruber frá Austurríki fór með sigur af hólmi í einliðaleik kvenna.

Sigríður Guðbjörg Bjarnadóttir formaður BSÍ fór á samráðsfund Norðurlandanna í Finnlandi. Fyrirhugað var að Ísland myndi ekki senda fulltrúa á fundinn í ár vegna óvissu í efnahagsmálum. Með aðstoð frá góðum aðilum tókst þó að ná endum saman án þess að nokkur kostnaður félli á sambandið.

Helgi Jóhannesson og Magnús Ingi Helgason kepptu á alþjóðlegu móti í Wales. Þeir féllu úr keppni í fyrstu umferð bæði í einliða og tvíliðaleik.

Badmintonsambandið hélt æfingabúðir á Siglufirði. Rúmlega 60 manns fengu kennslu í badminton í þessari heimsókn.

Lausn fannst á launamálum landsliðsþjálfarans, Árna Þórs Hallgrímssonar, og var uppsögn hans því dregin til baka.

Desember

Magnús Ingi Helgason komst í 16-liða úrslit á alþjóðlegu móti á Írlandi. Magnús Ingi og Helgi Jóhannesson komust einnig í 16-liða úrslit í tvíliðaleik.

Elsta badmintonfélag landsins, Tennis-og badmintonfélag Reykjavíkur varð 70 ára. Hátíðahöld í tilefni afmælisins fara fram á næsta ári.

Badmintonsambandið var með tveggja daga vel heppnaða badmintonkynningu í Vestmannaeyjum.

 

Auk ofangreindra viðburða á árinu 2008 fóru fram tugir badmintonmóta á vegum aðildarfélaga BSÍ. Landsliðshópar Badmintonsambandsins æfðu einnig öturlega á árinu bæði á stökum æfingum og í æfingabúðum yfir helgar.

Framundan er nýtt ár með nýjum og krefjandi verkefnum fyrir badmintonfólk um allt land. Ljóst er að árið mun einkennast af aðhaldi í rekstri enda erfið staða í fjármálum landsins um þessar mundir. Reynt verður eftir fremsta megni að halda hefðbundnum viðburðum sambandsins í föstum skorðum en óhjákvæmilega mun fólk finna fyrir einhverjum niðurskurði. Fyrsta verkefni landsliðanna á nýju ári er Evrópumótið sem fer fram í Liverpool á Englandi.

Stjórn og starfsfólk Badmintonsambandsins sendir badmintonfólki og landsmönnum öllum bestu óskir um gleðilegt ár og þakkir fyrir samstarfið á árinu sem nú er senn á enda.

Skrifađ 31. desember, 2008
ALS