Nýr heimslisti - Helgi og Magnús á uppleið

Í dag var gefin út nýr heimslisti af Alþjóða Badmintonsambandinu (BWF) en BWF gefur út nýjan heimslista hvern fimmtudag. Ekki hefur verið sérstaklega áhugavert fyrir Íslendinga að fylgjast með heimslistanum undanfarna mánuði þar sem að okkar fólk hefur lítið verið á faraldsfæti. Ferðalög Magnúsar Inga og Helga að undanförnu hafa hinsvegar breytt því.

Íslandsmeistararnir Helgi Jóhannesson og Magnús Ingi Helgason eru númer 197 á heimslistanum í tvíliðaleik karla í þessari viku og hafa hoppað upp um 103 sæti milli vikna. Það er frábær árangur og glæstur sigur þeirra félaga á Kýpur um síðustu helgi sem veldur þessari ánægjulegu hækkun. Það verður því spennandi að fylgjast með gengi þeirra í Slóvakíu um helgina og hvort mótið skili þeim enn meiri hækkun á listanum.

Þeir Helgi og Magnús hafa einnig hækkað á heimslistanum í einliðaleik eftir þátttöku sína í mótinu á Kýpur. Magnús var áður í 348 sæti en er nú númer 281. Helgi var ekki inná listanum í einliðaleik en er nú kominn í 468.sætið. Þrír aðrir Íslendingar Atli Jóhannesson, Tryggvi Nielsen og Bjarki Stefánsson eru einnig á heimslistanum.

Í einliðaleik kvenna eru fjórar íslenskar stúlkur á heimslistanum. Ragna Ingólfsdóttir trónir þar efst í 70.sæti listans. Næst kemur Tinna Helgadóttir í 205.sæti og síðan Katrín Atladóttir og Sara Jónsdóttir töluvert neðar. Í tvíliðaleik kvenna eru þær Katrín Atladóttir og Ragna Ingólfsdóttir númer 120 og Tinna Helgadóttir og Sara Jónsdóttir númer 198. Þá eru Systkinin Magnús Ingi og Tinna Helgabörn númer 145 í tvenndarleik.

Því miður munu íslensku leikmennirnir væntanlega lækka aftur á heimslistunum í nóvember en þá dettur út Iceland International frá því í fyrra og ekkert nýtt kemur í staðin. Eins og kunnugt er er búið að fella mótið í ár niður vegna efnahagsástandsins.

Smellið hér til að skoða heimslistann í badminton 16.október 2008.

Skrifað 16. oktober, 2008
ALS