Badminton í Borgarnesi

Badmintonsambandið heimsótti hressa krakka í Íþróttaskóla UMSB í vikunni. Íþróttaskólinn er í boði fyrir 1. og 2.bekk Grunnskólans í Borgarnesi. Krakkarnir koma ýmist beint úr skólanum eða Tómstundaskólanum þangað. Hvor aldurshópur fyrir sig er í Íþróttaskólanum tvisvar sinnum í viku og fá þar kynningu á íþróttagreinum sem eru í boði í sveitarfélaginu.

Krakkarnir fóru í ýmsa badmintonleiki gerðu þrautir með spaða og kúlu. Báðir hópar voru mjög duglegir og áhugasamir. Allir krakkarnir fengu að slá við þjálfara/kennara og voru dugleg að hitta á kúluna.

Yngri hópurinn var svo heppinn að fá Arnór Tuma Finnsson sem aðstoðarþjálfara í sinn tíma en hann keppir í U13 aldursflokknum fyrir Badmintondeild Skallagríms. Krakkarnir horfðu heilluð á þjálfarana spila og voru spennt að reyna fyrir sér sjálf.

Badminton var á dagskránni í íþróttatímum grunnskólans vikuna sem eldri hópurinn fékk heimsókn frá BSÍ. Krakkarnir æfðu því eins og sannir atvinnumenn tvisvar á dag.

Þjálfari hjá Badmintondeild Skallagríms í Borgarnesi er Helgi Magnússon en hann stjórnar æfingum fyrir börn og unglinga tvisvar sinnum í viku. Nánari upplýsingar um Ungmennafélagið Skallagrím má finna á heimasíðunni www.skallagrimur.is.

Hressir krakkar í Íþróttaskóla UMSB í Borgarnesi fengu heimsókn frá BSÍ.

Skrifađ 8. oktober, 2008
ALS