EM - Broddi kominn í undanúrslit

Fyrrum Ólympíufari Íslands í badminton, Broddi Kristjánsson, lék í átta liða úrslitum Evrópumóts öldunga sem fram fer á suður Spáni í morgun. Broddi mætti Svíanum Kjell Almgren en Almgren var fyrirfram talin annar sterkasti leikmaðurinn í 45+ flokknum.

Leikur þeirra Brodda og Almgren var jafn og skemmtilegur. Fyrstu lotuna sigraði Almgren 21-16 eftir að hafa haft yfirhöndina allan seinni hluta hennar. Aðra lotuna sigraði Broddi 21-14 og hafði forystu nær allan tíman. Það þurfti því að leika oddalotu til að knýja fram úrslit og þar var allt í járnum. Broddi og Almgren voru mjög jafnir í byrjun lotunnar en svo fór Almgren aðeins framúr. Eftir hléið í stöðunni 11-6 efldist Broddi og vann á forskot Almgren. Þeir voru síðan jafnir í stöðunni 18-18 og þá tók Broddi forskotið og sigraði á glæsilegan hátt 21-19.

Broddi er því kominn í undanúrslit mótsins sem er sannarlega frábær árangur. Undanúrslitin verða leikin á morgun föstudag en þar mætir Broddi Dananum Jesper Tolman. Ekki liggja miklar upplýsingar fyrir um danska leikmanninn nema hvað að hann var talin 3.-4.besti þátttakandinn í flokknum fyrir mótið og að hann beið lægri hlut fyrir Svíanum sem Broddi mætti í morgun á síðasta EM öldunga.

Hægt er að fylgjast með stöðu leikja á EM öldunga beint á netinu með því að smella á hnappinn „live score" efst í hægra horni úrslitasíðu mótsins. Smellið hér til að fylgjast með gangi mála á Evrópumóti öldunga í badminton.

Broddi Kristjánsson

Broddi Kristjánsson er magnaður íþróttamaður. Hann hefur unnið Íslandsmeistaratitil í badminton 43 sinnum og spilað 167 landsleiki fyrir Íslands hönd. Enginn annar leikmaður er nálægt því að slá met hans í titla- og landsleikjafjölda.

Skrifað 2. oktober, 2008
ALS