ÓL - Ragna að jafna sig

Badmintonfólk um allt land fékk sting í hjartað og tár í augun þegar afrekskonan Ragna Ingólfsdóttir féll í gólfið í fyrsta leik sínum á Ólympíuleikunum í Peking. Ragna var að vonum svekt með að ná ekki að klára leikinn en auðvitað ánægð líka að ná því að komast inná Ólympíuleikana og spila þar þrátt fyrir að vera með slitið krossband.

Þegar vinstra hnéð gaf sig í leiknum gegn japönsku stúlkunni Eriko Hirose rifnað liðþófi og annað liðbandið auk þess sem beinið marðist aðeins. Ragna er í góðum höndum í Peking þar sem fagteymi ÍSÍ sér vel um hana og aðstoðar hana við að ná sér eftir meiðslin. Að sögn Rögnu er hnéð að jafna sig smám saman og gat hún í fyrsta skiptið í dag byrjað að þjálfa það upp. Hún fer síðan í aðgerð í lok mánaðarins.

Ragna nýtur þess nú að vera ferðamaður í Peking. Hún er búin að skoða forboðnu borgina og torg hins himneska friðar og stefnir á að fara á Kínamúrinn áður en hún heldur heim á leið. Í dag er grenjandi rigning í Peking sem allir eru ánægðir með því loftið verður svo mikið léttara og hreinna eftir úrkomuna.

Smellið hér til að skoða leiki dagsins í badmintonkeppni Ólympíuleikanna í Peking.

Ragna Ingólfsdóttir í Ólympíuþorpinu

Skrifað 14. ágúst, 2008
ALS