Hanna María í TBR

Badmintonkonan Hanna María Guðbjartsdóttir sem frá unga aldri hefur búið og spilað badminton á Akranesi er gengin til liðs við Tennis- og badmintonfélag Reykjavíkur. Fréttaritari www.badminton.is heyrði í Hönnu Maríu um ástæðu þessara breytinga.

Landsliðshópur 2005.  Hanna María Guðbjartsdóttir

 

"Í haust mun ég hefja nám í Sálfræði við Háskóla Íslands. Ég hef ekki áhuga á að keyra á milli Akranes og Reykjavíkur dag hvern og er það því aðal ástæða þess að ég skipti um félag" sagði Hanna María. Hún er þó einnig mjög spennt fyrir að hefja æfingar í TBR og hlakkar mest til að hafa fleiri og fjölbreyttari æfingafélaga heldur en hún hafði á Akranesi. Hanna María mun fyrst um sinn búa hjá systur sinni Birnu sem margir þekkja enda fyrirverandi unglingalandsliðskona í badminton. Hún vonast síðan til þess að fá fljótlega inni á stúdentagörðunum.

Hanna María hefur ekki æfingar í TBR fyrr en í lok ágúst. Í sumar dvelur hún í Valencia á Spáni þar sem hún er í spænskuskóla. Hún sagði að því miður hefði ekki tekist að finna badmintonfélag í nágrenni við hana þannig að hún þarf að láta sér nægja að hlaupa úti til að halda sér við. Það getur þó stundum verið erfitt að fylgja þungum hlaupaáætlunum að sögn Hönnu Maríu því hitinn í Valencia um þessar mundir er í kringum 35 stig.

Ekki er vitað um önnur félagaskipti leikmanna fyrir næsta keppnistímabil. Töluverð breyting verður þó á fjölda leikmanna í meistaraflokki næsta vetur en alls voru átta færðir upp í flokkinn á ársþingi BSÍ í maí. Einnig voru tölvuert margir færðir upp í A-flokk og verður því spennandi að sjá hvernig ungir leikmenn finna sig í nýjum flokkum.

Skrifað 11. júlí, 2008
ALS