Erfiðir andstæðingar í Rússlandi

Í næstu viku hefst Evrópukeppni félagsliða í badminton í Rússlandi. Andstæðingar Íslandsmeistara TBR í C-riðli mótsins eru mjög sterkir og ljóst að það verður við ramman reip að draga hjá okkar fólki. Hver viðureign tveggja liða á mótinu samanstendur af tveimur einliðaleikjum karla og tveimur einliðaleikjum kvenna ásamt tvenndarleik og tvíliðaleik karla og kvenna. Það reynir því sérstaklega mikið á breidd liðanna í einliðaleik í þessari keppni.

Úkraínska liðið sem TBR mætir í fyrsta leik er mjög öflugt og voru margir liðsmenn þess í úkraínska landsliðinu sem varð í 8.sæti á Evrópumótinu sem fram fór í Danmörku í apríl síðastliðnum. Besti einliðaleiks karl þeirra, Valeriy Atrashchenkov komst í þriðju umferð á Evrópumótinu og er númer 115 á heimslistanum eða mun ofar en íslensku strákarnir. Þá er besta einliðaleiks kona þeirra, Elena Prus númer 80 á heimslistanum og því talin mun sigurstranglegri gegn bestu konu TBR, Tinnu Helgadóttur, sem er númer 190 á sama lista. Sigur í einliðaleikjunum verður því fyrirfram að teljast frekar ólíklegur. Á Evrópukeppni félagsliða í fyrra tapaði lið TBR naumlega fyrir Úkraínu 4-3 en þá unnust báðir tvíliðaleikirnir og annar einliðaleikur kvenna.

Þrátt fyrir að rússneska liðið Favorit-Ramenskoe sem TBR mætir í öðrum leik sínum hafi ekki sigrað liðakeppnina í Rússlandi og séu aðeins með í ár vegna þess að þeirr eru gestgjafar mótsins, ætti ekki að vanmeta getu þeirra. Leikmenn liðsins hafa nær allir tekið þátt í mörgum alþjóðlegum mótum undanfarin misseri og sumir hverjir náð mjög góðum árangri. Alexander Nikolaenko er einn besti tvenndarleiksspilari Evrópu og mun hann leika í úrslitakeppni Evrópumótaraðarinnar í ár. Þá hafa þau Elena Chernyavskaya og Anton Nazarenko einnig náð góðum árangri í tvenndarleik að undanförnu en þau sigruðu einmitt á síðasta Slovak International. Besta einliðaleikskona þeirra, Tatyana Bibik, er númer 124 á heimslistanum í einliðaleik kvenna.

Síðasti leikur TBR í riðlakeppni Evrópukeppninnar er gegn tyrkneska liðinu EGO Sport Club. Tyrkir hafa verið á mikill uppleið í badmintonheiminum undanfarin ár og hafa lið þeirra náð góðum árangri og þá sérstaklega í yngri landsliðum. Stúlkurnar í tyrkneska liðinu eru frekar óþekktar og fáar þeirra eru á heimslista Alþjóða Badmintonsambandsins. Þeirra besta kona Ezgi Epice náði þó góðum árangri á síðasta Evrópumóti unglinga þar sem hún komst í þriðju umferð í bæði einliða- og tvíliðaleik. Strákarnir í tyrkneska liðinu eru hinsvegar nokkuð kunnuglegri fyrir okkur Íslendingum því flestir þeirra voru í tyrkneska landsliðinu sem Ísland sigraði á Evrópukeppni karlalandsliða í febrúar síðastliðnum. Á Evrópumótinu í febrúar voru það tvíliðaleikirnir sem gengu best hjá okkar mönnum. Í Rússlandi í næstu viku eru það hinsvegar einliðaleikirnir sem vega meira og því spurning hvort að íslensku leikmönnunum takist að halda sigrinum sín megin.

Eins og fram kemur hér að ofan verða allir leikir erfiðir fyrir TBR og á pappírunum ekki miklar líkur á mörgum sigrum. Líkurnar eru þó mestar á sigri gegn tyrkneska liðinu. Það sem gerir íþróttirnar svo skemmtilegar er að úrslit leikja eru ekki alltaf þau sem spáð var fyrirfram. Það verður því spennandi að fylgjast með TBR liðinu etja kappi við bestu félagslið Evrópu í Rússlandi í næstu viku.

Smellið hér til að nálgast upplýsingar um Evrópukeppni félagsliða í badminton 2008. 

Skrifað 4. júní, 2008
ALS