Bestu landslið heims keppa í Jakarta

Heimsmeistarakeppni karla- og kvennalandsliða í badminton (Thomas og Uber Cup) fer nú fram í Jakarta í Indónesíu. Þrjú evrópsk kvenna lið og þrjú evrópsk karla lið keppa á mótinu ásamt átján öðrum liðum víðsvegar úr heiminum. Evrópsku liðin sex unnu sér rétt til þátttöku á mótinu með því að vera í efstu sætunum á Evrópumóti landsliða sem fram fór í Hollandi í febrúar. Átta liða úrslit mótsins fara fram á morgun miðvikudag.

Í keppni kvennaliða hefur danska landsliðið staðið sig framar vonum en það sigraði Malasíu í riðlakeppninni. Danska liðið mætir Þjóðverjum á morgun. Geysisterkt lið Kínverja er talið líklegast til að sigra keppni kvennaliða og tryggja sér Uber Cup bikarinn sjötta skiptið í röð.

Markverðast í keppni karla liða fram til þessa verður að teljast sigur Englendinga á Kóreu. Talið er að kóreska liðið hafi viljandi stillt upp slöku liði gegn Englendingunum til að mæta frekar Dönum í átta liða úrslitunum heldur en Indónesum. Danir kalla framgöngu kóreska liðsins svindl og óíþróttamannslega hegðun en forsvarsmenn kóreska liðsins segjast vera að nýta sér galla á keppnisfyrirkomulagi mótsins. Alþjóða Badmintonsambandið hefur nú þegar hafið endurskoðun á reglum keppninnar og er talið líklegt að þeim verði breytt eftir keppnina í ár. Kínverjar eru taldir líklegastir til sigurs í keppni karla landsliða. Takist þeim að sigra vinna þeir Thomas Cup bikarinn þriðja skiptið í röð. Danir telja sig hafa mjög sterkt lið í ár og binda vonir til þess að þeirra leikmenn nái að stela sigrinum af Kínverjum. Þeir þurfa þó að vinna tvo erfiða leiki áður en þeir fá tækifæri til að mæta kínverska liðinu.

Undanúrslit Heimsmeistarakeppni kvenna liða fara fram á fimmtudag og úrslitaleikurinn á laugardag. Undanúrslit í Heimsmeistarakeppni karla liða fara hinsvegar fram á föstudag og úrslitaleikurinn á sunnudag.

Smellið hér til að fylgjast með gangi mála á Heimsmeistarakeppni landsliða í badminton.

Skrifað 13. maí, 2008
ALS