Ólympíulistarnir gefnir út

Alþjóða badmintonsambandið (BWF) hefur nú gefið út lista yfir það hvaða leikmenn hafa tryggt sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Peking í sumar. Staða leikmanna 1.maí síðastliðin var lögð til grundvallar ásamt reglum BWF um Ólympíuleika. Samkvæmt reglunum getur hvert land að hámarki átt 3 leikmenn/pör í hverri grein á leikunum. Einnig skal það tryggt að amk einn leikmaður frá hverri af heimsálfunum fimm sem spilað er badminton í skuli fá þátttökurétt.

Eins og áður hefur komið fram hefur Íslandsmeistarinn Ragna Ingólfsdóttir tryggt sér rétt til þátttöku á Ólympíuleikunum í sumar. Samkvæmt listanum sem BWF hefur gefið út er Ragna númer 33 inn á leikana af 38 stúlkum í einliðaleik kvenna.

Keppt er í öllum fimm greinum badmintons á Ólympíuleikunum. Smellið á nöfn greinanna hér fyrir neðan til að sjá hvaða leikmenn/pör hafa öðlast þátttökurétt á Ólympíuleikunum í sumar.

Einliðaleikur kvenna
Einliðaleikur karla
Tvíliðaleikur kvenna
Tvíliðaleikur karla
Tvenndarleikur

Ólympíusambönd leikmannanna á listunum hér að ofan hafa frest til 31.maí næstkomandi til að staðafesta þátttöku síns fólks. Þann 11.júní sendir BWF síðan aftur út lista þar sem varamenn hafa verið settir inn fyrir þá leikmenn sem ekki óska eftir að nýta sæti sín. Í sumum löndum eru mjög strangar reglur varðandi þátttöku á Ólympíuleikum. Í Hollandi er t.d. ekki nóg að vinna sér þátttökurétt á leikunum heldur verða leikmenn að hafa náð í amk undanúrslit á ákveðnum mótum til að fá að taka þátt.

Smellið hér til að skoða heimasíðu BWF þar sem hægt er að finna ýmsar upplýsingar um Ólympíuleikana og skoða heimslistann í badminton.

Skrifađ 12. maí, 2008
ALS