Magnús Ingi meiddur

Fyrstu umferð í einliðaleik karla á Evrópumótinu í badminton sem nú fer fram í Herning í Danmörku lauk í kvöld. Íslensku keppendurnir tveir hafa báðir lokið keppni.

Atli Jóhannesson mætti Pablo Abian sem er sterkasti einliðaleiksspilari Spánverja og er númer 51 á heimslistanum. Eins og við var að búast var á brattan að sækja hjá Atla sem beið lægri hlut 21-12 og 21-8.

Magnús Ingi Helgason fékk það erfiða verkefni að að mæta Dananum Peter Mikkelsen í fyrstu umferð og 64 manna úrslitum í kvöld. Peter er talinn meðal 9-16 sterkustu leikmönnunum á mótinu og er númer 47 á heimslista Alþjóða Badmintonsambandsins. Magnús átti ágætis leik í fyrri lotunni en byrjaði að kenna sér meins í nára þegar leið á lotuna. Peter sigraði fyrstu lotuna 21-14 en í stöðunni 13-3 í seinni lotunni voru meiðslin orðin það slæm hjá Magnúsi að hann varð að gefa leikinn. Sjúkranuddari íslenska liðsins hefur verið með Magnús í meðferð í kvöld og er stefnan tekin á að leika tvíliðaleikinn á morgun þangað til annað kemur í ljós. Þeir Magnús Ingi og Helgi Jóhannesson mæta ensku pari í tvíliðaleiknum eftir hádegi á morgun fimmtudag.

Keppni á Evrópumótinu í badminton heldur áfram á morgun fimmtudag og hefst kl.7.00 í fyrramálið.

Hér er hægt að fylgjast með gangi mála á mótinu með því að smella hér.

Skrifað 16. apríl, 2008
ALS