Ísland áfram í hópi bestu badmintonþjóða Evrópu

Síðasti leikur íslenska landsliðsins á Evrópumótinu í badminton fór fram nú síðdegis. Ísland lék gegn Finnum um 13.sætið á Evrópumótinu og áframhaldandi sæti á meðal A-þjóða Evrópu. Fyrir leikinn voru Finnarnir taldir sigurstranglegri því þeirra leikmenn eru almennt ofar á heimslistanum en íslensku leikmennirnir. Þá var sagan einnig með Finnum sem hafa ellefu sinnum lagt íslenskt landslið að velli en Ísland hefur aðeins fjórum sinnum unnið Finna.

Fyrsti leikurinn í viðureigninni var tvenndarleikur þeirra Rögnu Ingólfsdóttur og Helga Jóhannessonar gegn Ilkka Nyqvist og Elina Vaisanen. Þau Helgi og Ragna héldu áfram sigurgöngu sinni á mótinu og sigruðu Finnana nokkuð örugglega 21-19 og 21-13.

Næst lék Bjarki Stefánsson sinn annan landsleik fyrir Íslands hönd gegn Ville Lang. Hin finnski Ville Lang hefur staðið sig mjög vel í alþjóðlegum mótum undanfarnar vikur en í mars vann hann tvö alþjóðleg mót og var í 2.sæti á einu. Þá er hann númer 67 á heimslistanum sem segir líka ýmislegt um getu hans. Bjarki barðist vel í leiknum en átti ekki möguleika gegn hinum sterka Ville sem sigraði 21-10 og 21-3. Staðan því orðin 1-1 í landsleik Íslands gegn Finnlandi.

Í einliðaleik kvenna fyrir Íslands hönd lék Tinna Helgadóttir gegn Anu Nieminen. Tinna lék einn sinn besta leik á ferlinum og var ekki svo fjarri því að stela sigri af þessum sterka leikmanni. Fyrstu lotuna vann Tinna á glæsilegan hátt 21-18 en í annari lotunni var Anu mun sterkari og sigraði 21-8. Það þurfti því að leika oddalotu til að knýja fram úrslit. Oddalotan var nokkuð jöfn en þó hafði Anu alltaf yfirhöndina og sigraði að lokum 21-17. Frábær árangur hjá Tinnu gegn Anu sem er númer 40 á heimslistanum í einliðaleik kvenna.

Þá var komið að tvíliðaleik karla þar sem þeir Helgi Jóhannesson og Magnús Ingi Helgson léku fyrir Íslands hönd gegn Ilkka Nyqvist og Ville Lang. Staðan var nú 2-1 í landsleiknum og pressa á okkar mönnum að íslenska liðinu inní leiknum. Þeir Helgi og Magnús Ingi spiluðu af öryggi í jöfnum og spennandi leik og unnu sinn þriðja tvíliðaleik í röð á mótinu 21-18, 16-21 og 21-13.

Tvíliðaleikur kvenna var nú enn og aftur hreinn úrslitaleikur hjá íslenska liðinu og ljóst að það lið sem myndi vinna hann væri sigurvegari landsleiksins. Þær Sara Jónsdóttir og Ragna Ingólfsdóttir léku fyrir Íslands hönd gegn þeim Saara Hynninen og Elina Vaisanen. Sara og Ragna réðu lögum og lofum á vellinum, sigruðu örugglega 21-10 og 21-11 og tryggðu þannig 3-2 sigur Íslands gegn Finnlandi.

Íslenska landsliðið í badminton hefur nú lokið keppni á Evrópumótinu í badminton. Árangurinn er sannarlega góður því liðið lenti í 13.sæti og náði draumamarkmiði sínu um að halda Íslandi á meðal A-þjóða Evrópu. Þá verður sigurinn gegn Finnum líka að teljast mjög markverður því íslenskt landslið í badminton hefur ekki náð að vinna Finna í landsleik síðan 1988.

Á morgun verður leikið til úrslita í liðakeppni Evrópumótsins þar sem Englendingar mæta Dönum. Einstaklingskeppnin hefst síðan á miðvikudag.

Hægt er að fylgjast með gangi mála beint á netinu með því að smella hér.

Heimasíða Evrópumótsins í badminton er: http://www.eurobadminton2008.com/

Niðurröðun, úrslit og tímasetningar liðakeppni Evrópumótsins má finna með því að smella hér.

Heimasíða Badmintonsambands Evrópu er: http://www.eurobadminton.org/

 

Helgi Jóhannesson, Atli Jóhannesson, Magnús Ingi Helgason, Árni Þór Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, Sara Jónsdóttir, Tinna Helgadóttir, Katrín Atladóttir og Ragna Ingólfsdóttir

 

Skrifað 14. apríl, 2008
ALS