Tékkar sigruđu naumlega

Það var mikil spenna í Herning í Danmörku í kvöld þegar Ísland mætti Tékklandi á Evrópumóti A-þjóða í badminton. Ljóst var fyrir leikinn að það lið sem myndi sigra ætti öruggt áframhaldandi sæti á meðal A-þjóða Evrópu en það lið sem myndi tapa þyrfti að leika gegn þremur öðrum þjóðum um síðasta lausa sætið meðal A-þjóða. Á pappírunum voru Tékkarnir taldir sigurstranglegri þar sem þeirra leikmenn eru ofar á heimslistum heldur en íslensku leikmennirnir. Ljóst var þó að Ísland ætti möguleika og þá sérstaklega í tvíliða- og tvenndarleikjunum.

Fyrsti leikur viðureignarinnar var tvenndarleikur. Leikurinn var æsispennandi en þau Ragna Ingólfsdóttir og Helgi Jóhannesson spiluðu mjög vel og komu Íslandi í 1-0 gegn Tékkum. Leikurinn fór 21-19 og 22-20. Eins og tölurnar gefa til kynna voru síðustu mínútur leiksins spennuþrungnar.

Bjarki Stefánsson spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir Íslands hönd þegar hann mætti Petr Koukal í einliðaleik karla. Petr er númer 37 á heimslistanum og sigraði á Iceland Express International mótinu sem fór fram í Reykjavík í nóvember. Bjarki átti ekki mikla möguleika gegn sterkum Petr sem sigraði nokkuð örugglega 21-7 og 21-6.

Í einliðaleik kvenna lék Sara Jónsdóttir fyrir Íslands hönd gegn Kristinu Ludikovu. Sara byrjaði leikinn betur og hafði yfirhöndina í fyrri lotunni. Undir lok lotunnar efldist Kristina til muna og náði að knýja fram sigur 21-18. Í seinni lotunni var Kristina með forystuna allan tíman og sigraði 21-15.

Þegar þeir Helgi Jóhannesson og Magnús Ingi Helgason hófu tvíliðaleik karla voru Tékkar yfir 2-1 í landsleiknum og ljóst að þeir yrðu að vinna ætti Ísland að eiga möguleika á sigri. Í fyrstu lotunni byrjuðu Tékkarnir Jakub Bitman og Jan Frohlich betur en um miðja lotu hrukku okkar menn í gang og sigruðu 21-17. Í annari lotunni voru íslensku strákarnir alltaf með forystu og sigruðu örugglega 21-12.

Þegar tvíliðaleikur kvenna hófst var staða í landsleiknum 2-2 og því um hreinan úrslitaleik að ræða í viðureign Íslands og Tékklands. Ragna Ingólfsdóttir og Tinna Helgadóttir léku fyrir Íslands hönd gegn þeim Kristinu Ludikovu og Hana Prochazkova. Leikurinn var mjög jafn og skiptust liðin á að vera með forystu. Í fyrstu lotunni komust þær Ragna og Tinna í 20-18 en misstu yfirhöndina og þær tékknesku sigruðu 22-20. Í annari lotunni voru íslensku stelpurnar með örlitla forystu mest allan tíman og sigruðu 21-17. Það þurfti því að leika oddalotu til að knýja fram úrslit. Oddalotan var æsispennandi og endaði með naumum sigri Tékkanna 21-18.

Sigur Tékka 3-2 gegn Íslandi tryggir þeim því áframhaldandi veru á meðal A-þjóða Evrópu. Ísland þarf hinsvegar að leika gegn Eistlandi, Írland og Finnlandi um 13.-16.sætið á mótinu og eitt laust sæti meðal A-þjóða Evrópu. Fyrsti leikur Íslands í keppni um sæti er gegn Eistum á morgun mánudag kl.8.00 að íslenskum tíma.

 

Helgi Jóhannesson, Atli Jóhannesson, Magnús Ingi Helgason, Árni Þór Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, Sara Jónsdóttir, Tinna Helgadóttir, Katrín Atladóttir og Ragna Ingólfsdóttir

 

Hægt er að fylgjast með gangi mála beint á netinu með því að smella hér.

Heimasíða Evrópumótsins í badminton er: http://www.eurobadminton2008.com/

Niðurröðun liðakeppni Evrópumótsins má finna með því að smella hér.

Heimasíða Badmintonsambands Evrópu er: http://www.eurobadminton.org/

Skrifađ 13. apríl, 2008
ALS