Öruggur sigur Englendinga

Íslenska landsliðið beið lægri hlut fyrir Englendingum á Evrópumótinu í badminton sem nú fer fram í Herning í Danmörku. Englendingar sigruðu alla leikina í viðureigninni eða 5-0. Tap íslenska liðsins er alls ekki óvænt enda hafa Englendingar yfir að skipa mjög sterkum leikmönnum og eru margir þeirra ofarlega á heimslistanum.

Fyrst var leikinn tvenndarleikur þar sem systkinin Magnús Ingi og Tinna Helgabörn léku gegn David Lindley og Jenny Wallwork. Leikurinn var stuttur og öruggur hjá Englendingunum sem sigruðu 21-5 og 21-6.

 

Tinna Helgadóttir og Magnús Ingi Helgason

 

Í einliðaleik karla lék Atli Jóhannesson fyrir Íslands hönd gegn Andrew Smith. Atli átti ágætis fyrri lotu sem fór 21-14 en í seinni lotunni tapaði hann 21-6. Andrew er númer 33 á heimslistanum og sterkasti einliðaleiksspilari Englendinga.

 

Atli Jóhannesson

 

Sara Jónsdóttir lék í einliðaleik kvenna gegn Tracey Hallam. Tracey sem er númer 16 á heimslistanum og sterkast einliðaleikskona Englendinga sigraði Söru 21-9 og 21-16. Síðari lotan var mun jafnari en sú fyrri og var Sara á tímabili með forystu í lotunni.

 

Sara Jónsdóttir

 

Þeir Magnús Ingi Helgason og Helgi Jóhannesson áttu ágætis tvíliðaleik gegn þeim Robert Adcock og Robin Middleton sem eru númer 43 á heimslistanum. Robert og Robin sem voru í undanúrslitum á Pólska Opna í síðasta mánuði sigruðu 21-15 og 21-12.

 

Magnús Ingi Helgason og Helgi Jóhannesson

 

Síðasti leikur viðureignar Íslands og Englands á Evrópumótinu var tvíliðaleikur kvenna þar sem Íslandsmeistararnir Ragna Ingólfsdóttir og Katrín Atladóttir léku gegn Natalie Munt og Joanne Nicholas. Ragna og Katrín áttu ágætis fyrri lotu sem fór 21-15 en í síðari lotunni sigruðu þær ensku örugglega 21-8.

 

Ragna Ingólfsdóttir og Katrín Atladóttir

 

Næsti leikur íslenska liðsins er gegn Frökkum á morgun sunnudag. Leikurinn hefst kl.8.00 að íslenskum tíma og er hægt að fylgjast með gangi mála beint á netinu með því að smella hér. Miðað við stöðu leikmanna á heimslistum eru Frakkar taldir sigurstranglegri í öllum leikjum viðureignarinnar á morgun.

Heimasíða Evrópumótsins í badminton er: http://www.eurobadminton2008.com/

Niðurröðun liðakeppni Evrópumótsins má finna hér: http://tournamentsoftware.com/sport/event.aspx?id=18411&event=1

Heimasíða Badmintonsambands Evrópu er: http://www.eurobadminton.org/

Skrifađ 12. apríl, 2008
ALS