Dregiđ í einstaklingskeppni Evrópumótsins

Evrópumótið í badminton hefst laugardaginn 12.apríl næstkomandi í Herning í Danmörku. Fyrst verður leikin liðakeppni þar sem Ísland hefur þátttökurétt í fyrsta skipti í mörg ár. Miðvikudaginn 16.apríl hefst síðan einstaklingskeppni mótsins. Búið er að draga í einstaklingskeppnina og ljóst að það er erfitt mót framundan hjá okkar fólki þar sem allt besta badmintonfólk álfunnar mætir til leiks. Flestir af andstæðingum íslensku leikmannanna eru ofar á heimslistanum en þeir og teljast því sigurstranglegri á pappírunum. Íslensku leikmennirnir hafa reyndar flestir haft lítið tækifæri til að vera á faraldsfæti að undanförnu og þannig vinna sér stig á heimslistann. Staða þeirra á listanum gefur því ekki góða mynd af getu þeirra.

Þátttakendur í einliðaleik kvenna eru alls 64 en fyrir Íslands hönd keppa þær Ragna Ingólfsdóttir, Tinna Helgadóttir og Katrín Atladóttir. Mótið gildir til stiga á heimslista Alþjóða Badmintonsambandið og því mikilvægt fyrir Rögnu í baráttunni um að komast á Ólympíuleikana. Til að Evrópumótið hafi veruleg áhrif á stöðu Rögnu á heimslistanum þyrfti Ragna að minnsta kosti að komast í gegnum fyrstu tvær umferðir mótsins. Líkurnar á því að það takist eru alls ekki svo fjarlægar.

 

Ragna Ingólfsdóttir

 

Ragna mætir í fyrstu umferð ítölsku stúlkunni Agnese Allegrini en hún er talin meðal 9-16 sterkustu stúlkunum á mótinu. Þær Ragna og Agnese hafa einu sinni mæst í alþjóðlegu móti svo vitað sé til en það var á Evrópumóti kvennalandsliða sem fram fór í febrúar. Þá sigraði Ragna þrátt fyrir að Agnese væri talin sigurstranglegri því hún var ofar á heimslistanum. Enn í dag er Agnese ofar en Ragna á heimslistanum en það hefur sýnt sig að það stoppar ekki Rögnu. Sigri Ragna Allegrini lítur út fyrir að næsti andstæðingur sé ekki eins erfiður því í 32 manna úrslitum mætir hún annað hvort Söru Walker frá Englandi (198 á heimslista) eða Karoliine Hoim frá Eistlandi (339 á heimslistanum).

 

Katrín Atladóttir

 Svissneska stúlkan Jeanine Cicognini verður andstæðingur Katrínar í fyrstu umferð. Jeanine sem er ein þeirra nítján stúlkna frá Evrópu sem er í Ólympíusæti í dag er númer 48 á heimslistanum. Katrín sem er númer 292 á heimslistanum telst því fyrirfram ekki sigurstranglegri í viðureigninni gegn þessum sterka leikmanni. Tinna mætir í fyrstu umferð sterkustu einliðaleikskonu Spánverja Lucia Tavera. Lucia er númer 81 á heimslistanum og telst því sigurstranglegri í viðureigninni gegn Tinnu sem er númer 256 á listanum.

 

Tinna Helgadóttir

 


Magnús Ingi Helgason fær það erfiða verkefni að mæta Dananum Peter Mikkelsen í fyrstu umferð og 64 manna úrslitum á Evrópumótinu. Peter er talinn meðal 9-16 sterkustu leikmönnunum á mótinu og er númer 47 á heimslista Alþjóða Badmintonsambandsins. Atli Jóhannesson fær einnig erfiðan andstæðing en hann mætir Pablo Abian sem er sterkasti einliðaleiksspilari Spánverja og er númer 51 á heimslistanum. Líkurnar á því að íslensku strákarnir komist í aðra umferð Evrópumótsins verða því fyrirfram að teljast frekar litlar.

 

Atli Jóhannesson

 


Í tvíliðaleik kvenna mæta þær Katrín Atladóttir og Ragna Ingólfsdóttir Hollendingunum Rachel Van Cutsen og Paulien Van Dooremalen og Sara Jónsdóttir og Tinna Helgadóttir mæta Carina Mette og Birgit Overzier frá Þýskalandi. Hollendingarnir eru númer 44 á heimslistanum og þær þýsku númer 30. Það verður því við ramman reip að draga hjá stelpunum í tvíliðaleiknum.

 

Magnús Ingi Helgason og Helgi Jóhannesson

Íslandsmeistararnir Magnús Ingi Helgason og Helgi Jóhannesson mæta í tvíliðaleik karla Englendingunum Christopher Adcock og Dean George. Christopher og Dean voru í undanúrslitum á Opna Portúgalska í síðasta mánuði og eru númer 62 á heimslistanum. Bjarki Stefánsson, sem nú er valin í A-landsliðið í badminton í fyrsta sinn, mætir ásamt Atla Jóhannessyni danska parinu Jens Eriksen og Martin Lundgaard Hansen í tvíliðaleiknum. Danirnir eru taldir annað sterkasta tvíliðaleiksparið í Evrópu og eru númer 14 á heimslista Alþjóða Badmintonsambandsins. Það verður spennandi að sjá hvernig okkar strákum gengur á móti þessum sterku pörum.

 

 

Tinna Helgadóttir og Helgi Jóhannesson

 


Þrjú íslensk pör leika á Evrópumótinu í tvenndarleik. Magnús Ingi Helgason og Sara Jónsdóttir mæta sterku pari frá Búlgaríu sem er númer 71 á heimslistanum. Hin íslensku pörin mæta óþekktum leikmönnum sem ekki eru á heimslistanum, Bjarki Stefánsson og Katrín Atladóttir mæta pari frá Úkraínu og Tinna Helgadóttir og Helgi Jóhannesson pari frá Eistlandi. Tvenndarleikurinn verður því að teljast nokkuð opinn og mestar líkur á að okkar fólk nái að komast áfram í aðra umferð í þeirri grein.

 

Helgi Jóhannesson, Atli Jóhannesson, Magnús Ingi Helgason, Árni Þór Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, Sara Jónsdóttir, Tinna Helgadóttir, Katrín Atladóttir og Ragna Ingólfsdóttir

 

Niðurröðun og tímasetningar Evrópumóts einstaklinga má nálgast hér: http://www.tournamentsoftware.com/sport/draws.aspx?id=20426

Skrifađ 9. apríl, 2008
ALS