Góður sigur á Tyrkjum

Íslenska karlalandsliðið í badminton mætti Tyrkjum í síðasta leik riðlakeppni Evrópumóts landsliða í Hollandi í dag. Leikurinn var mjög spennandi og ljóst að margir badmintonáhugamenn hafa setið spenntir og fylgst með beint á netinu. Íslenska liðið átti undir högg að sækja frá byrjun en efldist eftir því sem leið á og sigraði naumlega 3-2.

Magnús Ingi Helgason lék fyrsta einliðaleik gegn Hasan Huseyin Durakcan. Í fyrstu lotu var leikurinn mjög jafn uppí 16 en þá náði Hasan yfirhöndinni og sigraði 21-16. Í annari lotu hafði Hasan forystu allan tíman þrátt fyrir mjög jafnan leik og sigraði naumlega 22-20.

Annan einliðaleik lék Atli Jóhannesson fyrir Íslands hönd gegn Ali Kaya. Ali hélt forystu allan leikinn og sigraði örugglega fyrstu lotuna 21-10 en seinni lotan var jafnari og fór hún 21-17.

Þá var komið að Tryggva Nielsen að leika þriðja og síðasta einliðaleik íslenska liðsins. Ljóst var að ef Tryggvi myndi tapa leiknum væri landsleikurinn gegn Tyrklandi einnig tapaður. Það var því töluverð pressa á Tryggva að halda íslenska liðinu ennþá inni í leiknum. Leikurinn var mjög jafn og spennandi. Fyrstu lotuna sigraði Mustafa Yalvarici 22-20 en þá næstu sigraði Tryggvi örugglega 21-13. Það þurfti því að leika oddalotu til að knýja fram úrslit. Í oddalotunni hafði Tryggvi forystu í upphafi en síðan jafnaðist leikurinn og var æsispennandi allt til loka þegar Tryggvi sigraði 21-18.

Magnús Ingi Helgason og Helgi Jóhannesson léku fyrri tvíliðaleikinn fyrir Íslands hönd. Fyrir leikinn var staðan í landsleiknum 2-1 fyrir Tyrki og því nauðsynlegt fyrir þá Helga og Magnús Inga að sigra til að tryggja áframhaldandi spennunni og möguleika á sigri Íslands. Í fyrstu lotu voru þeir Helgi og Magnús með yfirhöndina allan tíman og sigruðu nokkuð örugglega 21-15. Í annari lotu sigruðu hinsvegar Tyrkirnir 21-17 og því þurfti að leika oddalotu til að knýja fram úrslit. Þar völtuðu þeir Helgi og Magnús Ingi hreinlega yfir Tyrkina og sigruðu 21-9.

Staðan var því orðin 2-2 í landsleiknum og komið að hreinum úrslitaleik þeirra Atla Jóhannessonar og Tryggva Nielsen gegn Ali Kaya og Nuri Balkan. Leikurinn var mjög jafn og greynilegt að um úrslitaleik var að ræða. Íslensku strákarnir voru þó sterkari og þá sérstaklega í seinni lotunni og sigruðu 21-19 og 21-11. Þar með var 3-2 sigur Íslands gegn Tyrklandi í höfn.

Íslenska karlalandsliðið í badminton hefur nú lokið þátttöku sinni á Evrópumóti landsliða. Liðið endaði í 3.sæti í sínum riðli en aðeins efsta lið riðilsins komst áfram í útsláttarkeppnina. Íslenska liðið er því í 16.-24.sæti karlalandsliða í Evrópu.

Evrópukeppni landsliða - Undankeppni Thomas og Uber Cup. Helgi Jóhannesson.  Evrópukeppni landsliða - Undankeppni Thomas og Uber Cup. Magnús Ingi Helgason  Evrópukeppni landsliða - Undankeppni Thomas og Uber Cup. Atli Jóhannesson.

Íslenska karlalandsliðið í badminton. Frá vinstri Helgi Jóhannesson, Magnús Ingi Helgason og Atli Jóhannesson. Mynd vantar af Tryggva Nielsen. 

Klukkan 13 hefst leikur Íslands og Þýskalands í keppni kvennalandsliða. Leikurinn er hreinn úrslitaleiku um sæti í átta liða útsláttarkeppni mótsins.

Smellið hér til að fylgjast með gangi mála á Evrópumóti landsliða í badminton.

Skrifað 14. febrúar, 2008
ALS