Deildakeppni BSÍ er um helgina

Deildakeppni BSÍ fer fram dagana 17. - 19. febrúar í TBR. Mótið er Íslandsmót félagsliða þar sem keppt er í þremur deildum; meistaradeild, A- og B-deild. Búið er að draga í mótið og má nálgast niðurröðun og tímasetningar með því að smella hér.

Alls hafa 15 lið skráð sig til þátttöku í Deildakeppni BSÍ og koma þau frá sjö félögum; Aftureldingu, BH, Hamri, ÍA, KR, TBR og UMFS.

Fyrirkomulagið í meistaradeild er þannig að fimm lið keppa í einum riðli, allir við alla. Sigurliðið er Íslandsmeistari félagsliða og félagið tryggir sé þátttökurétt í Evrópukeppni félagsliða.

Í A-deild eru fjögur lið skráð til þátttöku. Þau keppa í einum riðli, allir við alla.

Alls eru sex lið skráð til keppni í B-deild. Keppnisfyrirkomulagið er eins og í hinum deildunum tveimur, allir keppa við alla í einum riðli.

Keppni hefst klukkan 17:30 á föstudag með fyrstu umferð í meistaradeild. Fyrsta umferð B-deildar hefst svo klukkan 19:30. Á laugardag klukkan 10 hefst önnur umferð í meistaradeild og fyrsta umferð í A-deild. Keppni í B-deild verður fram haldið klukkan 12 á laugardag.

Síðustu umferðir keppninnar eru á sunnudag klukkan 12 í A-deild og 14 í hinum deildunum tveimur.

Yfirdómari mótsins er Laufey Sigurðardóttir og mótsstjóri er Margrét Gunnarsdóttir. Aðrir í mótsstjórn eru Karitas Eva Jónsdóttir og Dagbjört Ýr Gylfadóttir auk stjórmarmanna BSÍ.

Niðurröðun er birt með fyrirvara um villur. Mótsstjórn áskilur sér rétti til að gera lagfæringar ef þurfa þykir. Smellið hér til að sjá reglur um Deildakeppni BSÍ, leikjafyrirkomulag og nánari upplýsingar. 

Skrifað 15. febrúar, 2017
mg