Nýr heimslisti - Ragna enn númer 53

Alþjóða Badmintonsambandið (BWF) gaf út nýjan heimslista í dag. Íslandsmeistarinn Ragna Ingólfsdóttir er enn í 53.sæti listans og í 19.sæti Evrópubúa.

Baráttan fyrir Ólympíuleikana verður harðari með hverjum deginum og ljóst að það er mjög erfitt fyrir Rögnu að komast mikið ofar á listanum. Markmið hennar er að komast á topp 50 eins og hún náði fyrir áramót en það er hægara sagt en gert. Til þess að hækka sig þarf hún að öllum líkindum að vinna mót á styrkleikanum International Series eða komast í undanúrslit á International Challenge móti.

Það er þó nóg af slíkum mótum framundan og vonandi að Ragna nái markmiði sínu. Stefna Rögnu er tekin á eftirfarandi mót næstu vikurnar: 

Iran Fajr 2008 2.-5.febrúar
Evrópumót landsliða 12.-17.febrúar
Austrian International 20.-23.febrúar
Croatian International 6.-9.mars
Portuguese International 13.-16.mars.

Allar líkur eru á því að Ragna kæmist á Ólympíuleikana væri heimslistinn eins og hann lítur út í dag látin gilda. Það er hinsvegar heimslistinn 1.maí næstkomandi sem gildir og því heldur barátta Rögnu áfram. Smellið hér til að skoða heimslista BWF.

Skrifað 31. janúar, 2008
ALS