Margrét er Íslandsmeistari í einliðaleik

Úrslit í meistaraflokki hófust á úrslitum í einliðaleik kvenna þar sem Tinna Helgadóttir og Margrét Jóhannsdóttir öttu kappi. Tinna hefur fjórum sinnum orðið Íslandsmeistari í einliðaleik, árin 2009, 2013, 2014 og 2015. Margrét hefur ekki orðið Íslandsmeistari í einliðaleik.

Fyrsta lotan var mjög jöfn og ekki munaði meira en einu stigi á keppendum nánast alla lotuna sem endaði með því að Margrét sigraði 22-20. Önnur lotan var líka mjög jöfn og jafnt á nánast öllum stigum en endaði með því að Tinna tryggði sér oddalotu þegar hún vann 21-19. Tinna var yfir í oddalotunni 11-9 en Margrét jafnaði 11-11. Margrét var svo komin yfir 17-15 en það var aftur jafnt í stöðunni 19-19.

Margrét vann svo að lokum 21-19 og tryggði sér þá sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í einliðaleik í meistaraflokki.

Skrifað 10. apríl, 2016
mg