Tinna hefur veri­ rß­in landsli­s■jßlfari og Helgi a­sto­arlandsli­s■jßlfari

Tinna Helgadóttir hefur verið ráðin landsliðsþjálfari Íslands í badminton. Hún tekur við starfinu þann 1. desember næstkomandi. Helgi Jóhannesson, sem hefur gegnt stöðu unglingalandsliðsþjálfara, verður aðstoðarlandsliðsþjálfari.

Tinna er búsett í Danmörku og spilar þar með Værløse 2 sem er í fyrstu deild í Danmörku. Ferill Tinnu í badminton er glæsilegur:

Fjórtánfaldur Íslandsmeistari
- Fjórum sinnum í einliðaleik
- Þrisvar sinnum í tvíliðaleik
- Sjö sinnum í tvenndarleik
51 landsleikur
Meðlimur A-landsliðs þegar Ísland vann gull á EM B-þjóða í badminton á Íslandi
Danskur meistari með Greve 2010 og brons 2008

Tinna er íþróttafræðingur frá Kaupmannahafnarháskóla en hún hefur jafnframt gráðurnar DBF3 badmintonþjálfari og Diplomþjálfari frá Aalborg Sportshøjskole. Þá er hún að klára Idrættens Trænerakademi frá Danmarks Idrætsforbund.

Tinna hefur starfað sem talentþjálfari hjá Greve Badmintonklub 2008-2010, talentþjálfari hjá Værløse Badmintonklub 2010-2012 og yfirþjálfari unglingadeildar Værløse Badmintonklub frá 2012.

Helgi Jóhannesson er sautjánfaldur Íslandsmeistari
- Fimm sinnum í einliðaleik
- Tíu sinnum í tvíliðaleik
- Tvisvar í tvenndarleik

Hann hefur jafnframt tekið námskeið í þjálfun í badminton auk námskeiðs í Danmörku á sviði afreksþjálfunar. Helgi hefur starfað sem þjálfari undanfarin ár.

Frímann Ari Ferdinandsson fráfarandi landsliðsþjálfari verður formaður Afreks- og landsliðsnefndar Badmintonsambandsins.

Tímabilið í vetur verður notað til uppbyggingar og með það í huga verður settur saman afrekshópur. Spilarar í afrekshópi verða krafðir um metnað og dugnað og fá persónulega athygli að launum. Val í afrekshóp er algerlega í höndum landsliðsþjálfarateymisins. Spilarar í afrekshópi verða sendir í verkefni við þeirra hæfi, sem verða valin af landsliðsþjálfurum í samvinnu við spilarann. Þessi verkefni verða með það að hugarfari að vinna að þeim markmiðum sem spilarinn og landsliðsþjálfarar hafa sett upp saman. Tekin hefur verið ákvörðun um að senda ekki lið í Evrópukeppni karla- og kvennalandsliða að þessu sinni meðal annars vegna ofangreinds.

Ákvarðanir varðandi hópa og ferðir verða teknar í fyrsta lagi eftir Meistaramót TBR í upphafi nýs árs. Tímasetningar æfinga fyrir og eftir jól verða ákveðnar fyrir 1. desember og verða birtar hér á heimasíðu Badmintonsambandsins.

Tinna hlakkar til að vinna með landsliðsfólki og vonar að fólk noti tímann fram að jólum til að æfa á fullu og til að hugsa um hvaða markmiði það er að vinna að.

Skrifa­ 26. nˇvember, 2015
mg