Helgi og Sara sigruðu á Óskarsmótinu

Fimmta mótið af níu á Stjörnumótaröð BSÍ, Óskarsmót KR, fór fram í gær í KR heimilinu. Mótið er haldið til minningar um KR-inginn Óskar Guðmundsson. Óskar var mjög ötull í starfi Badmintondeildar KR frá upphafi og allt þar til hann kvaddi þennan heim. Auk þess var hann mjög góður badmintonmaður og vann samtals 15 Íslandsmeistaratitla í meistaraflokki. Í einliðaleik karla sigraði hann 8 sinnum, 5 sinnum í tvíliðaleik karla og 2 sinnum í tvenndarleik.

Keppt var í einliðaleik í öllum flokkum fullorðinna á Óskarsmótinu í gær. Í meistaraflokki kvenna sigraði TBR-ingurinn Sara Jónsdóttir á sínu öðru móti í röð. Í úrslitum sigraði hún Katrínu Atladóttur, TBR, í hörku leik 21-16, 18-21 og 21-16.

Í meistaraflokki karla sigraði Helgi Jóhannesson Daníel Thomsen í úrslitum 21-10 og 21-14 en þeir eru báðir úr TBR. Daníel hafði áður unnið Atla Jóhannesson nokkuð óvænt en Atli var með fyrstu röðun í mótinu.

Heimamenn úr KR voru sigursælir í A-flokki karla þar sem Reynir Guðmundsson sigraði félaga sinn Júlíus Þorsteinsson í úrslitum. Una Harðardóttir frá Akranesi sigraði Sigrúnu Maríu Valsdóttur úr Badmintonfélagi Hafnarfjarðar í úrslitum í A-flokki kvenna. TBR-ingarnir Thomas Þór Thomsen og Elisabeth Christensen sigruðu í B-flokknum.

Smellið hér til að skoða úrslit allra leikja á Óskarsmóti KR.

Skrifað 25. janúar, 2008
ALS