Elsa og Tryggvi komin áfram í tvenndarleik á Heimsmeistaramóti öldunga

Heimsmeistaramót öldunga fer nú fram í Helsingborg í Svíþjóð. Átta íslenskir keppendur taka þátt í mótinu en þrír leikir fóru fram í dag sem íslenskir keppendur kepptu í.

Elsa Nielsen og Tryggvi Nielsen kepptu í tvenndarleik í flokki 35. Þau unnu léttilega Jukka Rantanen og Anne-Mari Kallio frá Finnlandi í tveimur lotum, 21-12 og 21-8. Elsa og Tryggvi mæta Mohankumar Ponnusamy og Navya Nallam frá Indlandi á morgun, mánudag. Elsa keppir einnig í einliðaleik á morgun gegn Dipika Mehta frá Indlandi.

Vigdís Ásgeirsdóttir og Sævar Ström kepptu einni g í tvenndarleik í flokki 35. Þau mættu Dönunum Esben B. Kæmpegaard og Helle Kæmpegaard. Sævar og Vigdís töpuðu 11-21 og 10-21.

Sævar keppti einnig í einliðaleik í flokki 35. Hann mætti Andreas Lindner frá Þýskalandi og tapaði 13-21 og 8-21. Sævar er því úr leik í einliðaleik og tvenndarleik en keppir á þriðjudaginn í tvíliðaleik í flokki 35 ásamt félaga sínum, Indriða Björnssyni. Indriði keppir einnig í einliðaleik á morgun gegn Rafal Bogdanski frá Póllandi.

Vigdís er úr leik í tvenndarleik en keppir ásamt Elsu Nielsen í tvíliðaleik í flokki 35 á þriðjudaginn.

Á morgun keppa einnig sinn fyrsta leik á mótinu Þorsteinn Páll Hængsson í einliðliðaleik í flokki 50 en hann mætir Timothy J Moore frá Englandi. Broddi Kristjánsson mætir á morgun í einliðaleik í flokki 50 Victor Medvedev frá Rússlandi en Brodda er raðað númer sex inn í einliðaleik karla í flokknum. Broddi og Þorsteinn keppa einnig í tvíliðaleik í flokki 50 og spila sinn fyrsta leik á þriðjudaginn.

Smellið hér til að sjá fleiri úrslit á Heimsmeistaramóti öldunga 2015.

Skrifað 20. september, 2015
mg