Atli og Kári unnu einn leik fyrir Ísland

Íslenska landsliðið mætti Spánverjum í fimmta riðli undankeppni Evrópumótsins í badminton í dag. Þeir Atli Jóhannesson og Kári Gunnarsson sigruðu eina leik Íslands í viðureigninni sem endaði því 4-1 fyrir Spán. Flestir leikirnir voru þó jafnir og spennandi og var íslenska liðið mjög nálægt sigri í bæði tvenndarleik og einliðaleik karla.
 
Fyrsti leikur viðureignarinnar var tvenndarleikur. Fyrir Ísland spiluðu þau Daníel Thomsen og Rakel Jóhannesdóttir gegn Ernesto Velazquez og Beatriz Corrales. Spánverjarnir sigruðu fyrstu lotuna nokkuð sannfærandi 21-13 en þau Daníel og Rakel snéru spilinu algerlega við í annarri lotu og sigruðu hana örugglega 21-12. Það þurfti því að leika oddalotu til að knýja fram úrslit. Oddalotan var mjög jöfn og spennandi en Spánverjarnir sigu framúr í lokin og sigruðu 21-16.
 
Í einliðaleik kvenna mætti Sara Högnadóttir Clara Azumendi. Sú spænska, sem er um 200 sætum ofar en Sara á heimslistanum, hafði góða stjórn á leiknum allan tímann og sigraði Söru örugglega 21-6 og 21-10.
Kári Gunnarsson spilaði einliðaleik karla gegn Luis Enrique Penalver. Kári tapaði fyrstu lotunni 21-13 en sigraði aðra lotuna örugglega 21-10. Oddalotan var spennandi en Kári missti þann spænska framúr sér á loka metrunum og tapaði 21-15.
 
Í tvíliðaleik kvenna mættu þær Rakel Jóhannesdóttir og Snjólaug Jóhannsdóttir heimsmeistaranum í einliðaleik kvenna, Carolina Marin, og Isabel Fernandez. Leikurinn var spennandi og skemmtilegur en endaði með sigri spænsku stúlknanna 21-16-21-15.
 
Síðasti leikur viðureignarinnar var tvíliðaleikur karla þar sem þeir Atli Jóhannesson og Kári Gunnarsson komu grimmir til leiks ákveðnir í að koma Íslandi á blað. Fyrstu lotuna sigruðu þeir glæsilega 21-19 og voru ekki síðri í annarri lotunni sem þeir sigruðu 21-14 við mikinn fögnuð áhorfenda.
 
Smellið hér til að skoða úrslitin úr leik Spánar og Íslands nánar.
 
Á morgun sunnudag verða spilaðir síðustu leikir riðilsins en þá mætir Ísland Tyrkjum kl.13 og Spánn og Króatía spila kl.9.

Skrifað 8. nóvember, 2014
ALS