Nýr heimslisti

Alþjóða Badmintonsambandið (BWF) gaf út nýjan heimslista í dag. Íslandsmeistarinn Ragna Ingólfsdóttir er sem fyrr í 53.sæti listans en hún hefur staðið í stað á listanum síðustu þrjár vikur. Ef eingöngu eru skoðaðir leikmenn frá Evrópu er Ragna númer 19 í álfunni.

Nokkrir aðrir íslenskir leikmenn eru á heimslistanum í badminton en staða þeirra segir lítið um getu þar sem þeir hafa ekki átt kost á að taka þátt í nógu mörgum alþjóðlegum mótum síðustu 12 mánuði. Í einliðaleik kvenna er Tinna Helgadóttir nr. 293 á listanum og Katrín Atladóttir nr. 331. Í einliðaleik karla er Magnús Ingi Helgason nr. 349 og Atli Jóhannesson númer 403. Þá eru þær Katrín og Ragna númer 193 á heimslistanum í tvíliðaleik kvenna en það er frábær árangur þeirra á Iceland Express International sem fleytir þeim svo hátt þrátt fyrir að hafa teki þátt í fáum mótum. Í tvíliðaleik karla eru engin íslensk pör á heimslistanum en í tvenndarleik eru systkinin Magnús Ingi og Tinna Helgabörn númer 236.

Sem fyrr eru það Asíu þjóðirnar sem eru alsráðandi á toppi heimslistanna í badminton. Peter Gade frá Danmörku er eini Evrópubúinn á topp 5 í einliðaleik karla og Pi Hongyan frá Frakklandi er sú eina frá Evrópu á topp 5 í einliðaleik kvenna. Í tvíliðaleik karla og kvenna eru engin evrópsk pör á topp fimm en í tvenndarleiknum eru hinsvegar Englendingarnir Nathan Robertsson og Gail Emms í toppbaráttunni.

Smellið hér til að skoða heimslista BWF.

Skrifað 10. janúar, 2008
ALS