Lyfjaeftirlit alltaf að aukast

Aldrei hafa verið tekin fleiri lyfjapróf hérlendis heldur en á síðastliðnu ári. Á vegum ÍSÍ voru tekin 159 lyfjapróf í 19 íþróttagreinum. Auk þess framkvæmdi ÍSÍ 20 lyfjapróf fyrir aðra. Fjórir leikmenn í landsliðum Badmintonsambands Íslands voru teknir í lyfjapróf rétt fyrir Evrópukeppni B-þjóða í janúar á síðasta ári. Engin lyf af bannlista fundust í sýnunum fjórum.

Á þessu ári verður fjöldi prófa á vegum ÍSÍ enn aukinn. Hægt er að fylgjast með hvar og hvenær lyfjapróf hafa farið fram ásamt niðurstöðum úr prófunum þegar þær liggja fyrir á heimasíðu lyfjaeftirlits ÍSÍ, www.lyfjaeftirlit.is.

WADA eða World Anti-Doping Agency gefur út lista yfir bönnuð efni og aðferðir sem ÍSÍ notar í sínum prófunum. Mikilvægt er að íþróttamenn og þjálfarar séu meðvitaðir um þennan lista og leiti sér upplýsinga í honum þegar þörf er á að taka inn lyf. Mörg lyf sem notuð eru við lungnavandamálum eins og astma, langvarandi berkjubólgu eða lungnabólgu og fleira eru bönnuð og þarf að sækja sérstaklega um undanþágu fyrir notkun þeirra. Sé íþróttamaður tekin í lyfjapróf án þess að hafa sótt um undanþágu fyrir þessum lyfjum á hann á hættu á að vera dæmdur í keppnisbann.

Umsóknareyðublöð vegna undanþágu á notkun ákveðinna lyfja má nálgast á www.lyfjaeftirlit.is.

Skrifað 9. janúar, 2008
ALS