Fjölmennt Meistaramót TBR um helgina

Um næstu helgi fer fram fjórða mót vetrarins á Stjörnumótaröð BSÍ, Meistaramót TBR. Mótið er mjög fjölmennt en alls eru 105 keppendur frá 5 félögum skráðir til keppni. Flestir af sterkustu badmintonmönnum landsins taka þátt í mótinu.

Hjá konunum eru það Katrín Atladóttir, Tinna Helgadóttir og Sara Jónsdóttir sem líklegastar eru til að vera í forystu. Þær stöllur stóðu sig allar mjög vel á Iceland Express International í nóvember síðastliðnum og munu án efa veita hver annari harða keppni um helgina. Íslandsmeistarinn Ragna Ingólfsdóttir einbeitir sér algerlega að alþjóðlegri keppni þessa mánuðina og tekur því ekki þátt í mótinu.

Hjá körlunum er ánægjulegt að sjá að Helgi Jóhannesson er aftur mættur til leiks eftir bakmeiðsli en einnig er skráður til keppni Íslandsmeistarinn Magnús Ingi Helgason. Þá er Hugi Heimisson sem um árabil hefur keppt og æft fyrir hönd Svíþjóðar einn af keppendunum í meistaraflokki karla. Hugi var um tíma á topp 80 heimslistans og því mjög sterkur leikmaður. Hann hefur þó tekið sér hlé frá alþjóðlegri badmintonkeppni um tíma en er að hefja keppni aftur um þessar mundir.

Mótið hefst á laugardag kl. 10.00 á keppni í tvenndarleik. Keppni í einliðaleik hefst um kl.11 en þar er leikið í riðlum. Keppni í tvíliðaleik hefst svo um kl. 15.30 en áætlað er að keppni dagsins ljúki um kl. 17.00. Á sunnudeginum fara fram undanúrslit og úrslit í öllum flokkum. Keppni hefst kl. 10.00 og áætlað er að henni ljúki um kl. 14.30.

Smellið hér til að skoða niðurröðun og nákvæmar tímasetningar mótsins. Athugið þó að tímasetningar eru alltaf til viðmiðunar og hugsanlegt að leikir hefjist örlítið fyrr eða síðar.

Smellið hér til að skoða nánari upplýsingar um Stjörnumótaröð BSÍ og stöðu leikmanna á styrkleikalista mótaraðarinnar. 

Skrifað 4. janúar, 2008
ALS