Reykjavíkurmót fullorđinna er um helgina

Reykjavíkurmót fullorðinna verður haldið í TBR húsinu við Gnoðarvog um helgina.

Mótið, sem hefst klukkan 18 á föstudaginn, er hluti af Dominosmótaröð Badmintonsambandsins og gefur stig á styrkleikalista BSÍ.

Keppendur á mótinu eru 96 talsins frá sjö félögum, Aftureldingu, BH, ÍA, KR, TBR, UMFS og UMF Þór. Gestir í mótinu eru 14 talsins frá Færeyjum. Keppt verður í riðlum í einliðaleik en í útsláttarkeppni í tvíliða- og tvenndarleik.

Leikið verður til úrslita í meistaraflokki á laugardaginn þar sem landsliðið heldur til Basel í Sviss á sunnudagsmorguninn til að taka þátt í Evrópukeppni karla- og kvennalandsliða.

Í öðrum flokkum verður leikið fram í undanúrslit á laugardaginn en undanúrslita- og úrslitaleikir fara fram á sunnudaginn.

Alls verða spilaðir 173 leikir í Reykjavíkurmóti fullorðinna, 37 á föstudegi, 110 á laugardegi og 26 á sunnudegi.

Smellið hér til að sjá niðurröðun og tímasetningar á Reykjavíkurmóti fullorðinna.

Þá mun fara fram vináttulandsleikur á milli Færeyja og Íslands á sunnudaginn en nánari tímasetning verður gefin út á morgun. Það verður B-landslið Íslands sem tekur þátt.

Skrifađ 6. febrúar, 2014
mg