Úrslit Límtrésmóts KR

Límtrésmót KR var á sunnudaginn. Mótið er hluti af stjörnumótaröð Badmintonsambandsins og gefur stig á styrkleikalista. Keppt var í öllum greinum í meistaraflokki, A- flokki og B-flokki en ekki náðist fjöldi í allar greinar í B-flokki. Mótið var síðasta mótið fyrir Meistaramót Íslands sem verður í Hafnarfirði helgina 12. - 14. apríl nk.

Í meistaraflokki stóð Róbert Þór Henn TBR uppi sem sigurvegari í einliðaleik. Atli Jóhannesson TBR varð í öðru sæti en hann tapaði úrslitaleiknum eftir oddalotu 20-22, 21-18 og 21-23. Einliðaleik kvenna sigraði Rakel Jóhannesdóttir TBR eftir sigur á Elínu Þóru Elíasdóttur TBR 21-12 og 21-7. Tvíliðaleik karla sigruðu Atli og Helgi Jóhannessynir TBR eftir sigur á Bjarka Stefánssyni og Daníel Thomsen TBR 21-15 og 21-16. Í tvíliðaleik kvenna sigruðu Elín Þóra Elíasdóttir og Rakel Jóhannesdóttir TBR en þær unnu Sunnu Ösp Runólfsdóttur og Þorbjörgu Kristinsdóttur TBR 21-10 og 21-9. Tvenndarleikinn sigruðu Helgi Jóhannesson og Elín Þóra Elíasdóttir TBR eftir að hafa sigrað í úrslitum Bjarka Stefánsson og Rakel Jóhannesdóttur TBR 21-19 og 21-15.

Í A-flokki sigraði Pálmi Guðfinnsson TBR í einliðaleik karla. Hann vann Sigurð Sverri Gunnarsson TBR 21-16 og 21-18. Einliðaleik kvenna vann Alda Karen Jónsdóttir TBR eftir að hafa unnið Unni Björk Elíasdóttur TBR í úrslitum 21-15 og 21-17. Tvíliðaleik karla sigruðu Sigurður Sverrir Gunnarsson og Þorkell Ingi Eriksson TBR eftir sigur á Davíð Bjarna Björnssyni og Pétri Hemmingsen TBR 21-18 og 21-15. Tvíliðaleik kvenna unnu Alda Karen Jónsdóttir og Margrét Nilsdóttir TBR en þær sigruðu Huldu Lilju Hannesdóttur og Jónu Kristínu Hjartardóttur TBR eftir gríðarlega spennandi oddalotu 22-20, 12-21 og 24-22. Tvenndarleikinn unnu Sigurður Sverrir Gunnarsson og Hulda Lilja Hannesdóttir TBR. Þau unnu Davíð Bjarna Björnsson og Öldu Karen Jónsdóttur TBR 21-19 og 21-18.

Davíð Phoung TBR sigraði í einliðaleik karla í B-flokki en þetta er fimmta fullorðinsmótið sem hann vinnur í vetur. Hann vann Vigni Haraldsson TBR eftir oddalotu 21-10, 13-21 og 21-18. Margrét Nilsdóttir TBR vann einliðaleik kvenna er hún sigraði Línu Dóru Hannesdóttur TBR 21-17 og 21-12. Davíð Phoung og Vignir Haraldsson TBR unnu tvíliðaleik karla en þeir unnu í úrslitaleik Alex Harra Jónsson og Kolbein Brynjarsson TBR 22-20 og 21-16. Ekki var keppt í tvíliðaleik kvenna í B-flokki né í tvenndarleik.

Smellið hér til að sjá fleiri úrslit á Límtrésmóti KR. Síðasti skráningardagur í Meistaramót Íslands er miðvikudagur 3. apríl.

Skrifađ 26. mars, 2013
mg