Úrslit Meistaramóts TBR

Fimmta mót stjörnumótaraðar BSÍ, Meistaramót TBR 2013, var um helgina. Keppt var í öllum greinum í meistaraflokki, A- flokki og B-flokki nema í tvíliðaleik kvenna í B-flokki.

Í meistaraflokki stóð Íslandsmeistarinn og badmintonmaður ársins 2012, Kári Gunnarsson TBR, uppi sem sigurvegari eftir að hafa unnið Atla Jóhannesson TBR í einliðaleik karla 21-17 og 21-16.

Tvíliðaleikinn unnu Magnús Ingi Helgason og Helgi Jóhannesson TBR er þeir unnu Atla Jóhannesson og Kára Gunnarsson TBR 21-10 og 21-16.

Tvenndarleikinn unnu Magnús Ingi og Tinna Helgabörn eftir sigur á Atla Jóhannessyni og Snjólaugu Jóhannsdóttur TBR 21-14 og 21-13.

Einliðaleik kvenna sigraði Snjólaug Jóhannsdóttir TBR en hún vann systur sína, Margréti, í úrslitaleik 21-14 og 21-18. Þær mættust einnig í úrslitaleik á þessu móti fyrir ári síðan.

Í tvíliðaleik kvenna sigruðu Erla Björg Hafsteinsdóttir BH og Tinna Helgadóttir TBR er þær lögðu Karitas Ósk Ólafsdóttur og Snjólaugu Jóhannsdóttur TBR að velli 21-17 og 21-15.

Í A-flokki sigraði Thomas Þór Thomsen TBR í einliðaleik karla. Hann vann Davíð Bjarna Björnsson TBR 21-10 og 21-10.

Einliðaleik kvenna vann Alda Jónsdóttir TBR en hún vann Huldu Lilju Hannesdóttur TBR í úrslitaleik eftir oddalotu 15-21, 21-11 og 23-21.

Tvíliðaleik karla unnu Sigurður Sverrir Gunnarsson og Þorkell Ingi Eriksson TBR en þeir unnu í úrslitaleiknum Þórhall Einisson og Geir Svanbjörnsson TBR naumlega 21-18 og 22-20.

Gömlu kempurnar Hrund Guðmundsdóttir og Áslaug Jónsdóttir TBR unnu einnig naumlega tvíliðaleik kvenna eftir sigur á Elisabeth Christensen og Huldu Lilju Hannesdóttur TBR 21-18 og 23-21.

Tvenndarleikinn unnu Þórhallur Einisson og Hrund Guðmundsdóttir TBR eftir sigur á Snorra Tómassyni og Elisabeth Christensen TBR 21-19 og 21-18. Úrslitaleikir í A-flokki voru því allir mjög jafnir og spennandi.

Davíð Phoung TBR sigraði í einliðaleik karla í B-flokki en hann vann Vigni Haraldsson TBR 21-11 og 21-17.

Lína Dóra Hannesdóttir TBR sigraði einliðaleik kvenna í B-flokki en í þeim flokki var keppt í riðlum. Lína Dóra vann alla sína leiki.

Tvíliðaleik karla unnu Davíð Phoung og Vignir Haraldsson TBR en þeir unnu í úrslitaleiknum Daníel Þór Heimisson og Halldór Axel Axelsson ÍA 21-17 og 21-19.

Tvenndarleikinn unnu Vignir Haraldsson og Lína Dóra Hannesdóttir TBR en þau unnu Harra Ormarsson og Elínu Wang TBR 21-15 og 21-15.

Smellið hér til að sjá fleiri úrslit á Meistaramóti TBR.

Næsta mót á stjörnumótaröð BSÍ er Óskarsmót KR 19. febrúar 2013.

Skrifað 6. janúar, 2013
mg