Búast má við hörkuleikjum á Iceland International mótinu

Sextánda Iceland International mótið hefst á föstudaginn í TBR húsunum við Gnoðarvog. Til leiks eru skráðir 85 keppendur frá 19 löndum, Belgíu, Kanada, Tékklandi, Danmörku, Englandi, Þýskalandi, Ungverjalandi, Írlandi, Ítalíu, Kóreu, Litháen, Nígeríu, Noregi, Rússlandi, Skotlandi, Svíþjóð, Taívan (Chinese Taipei), Wales og Íslandi. Mótið er hluti af mótaröð Badminton Europe og gefur stig á heimslista. Verðlaunafé nemur 5.000 dollurum sem skiptist á milli greina.

Tien Chen Chou frá Tævan (Chinese Taipei) er raðað númer eitt í einliðaleik karla. Hann er í 39. sæti heimslistans og vann Grand Prix mótið Canada Open í júlí og varð í öðru sæti Grand Prix Gold mótsins Chinese Taipei Open í október síðastliðnum. Andrew Smith frá Englandi er raðað númer tvö en hann er í 77. sæti heimslistans. Hann vann Slovenia International í maí og varð í öðru sæti Li-Ning Victorian International í júní.

Í einliðaleik kvenna er Akvile Stapusaityte raðað númer eitt. Hún keppti úrslitaleik við Rögnu Ingólfsdóttur í fyrra á Iceland International og tapaði eftir oddalotu. Hún atti einnig kappi við Rögnu á Ólympíuleikunum í London í sumar og beið einnig í lægra haldi þar. Stapusaityte er númer 91 á heimslista. Grace Gabriel frá Nígeríu er raðað númer tvö en hún er númer 104 á heimslistanum.

So Hee Lee og Seung Chan Shin frá Kóreu er raðað númer eitt inn í tvíliðaleik kvenna. Þær eru númer 64 á heimslistanum og hömpuðu heimsmeistaratitli í tvíliðaleik kvenna á heimsmeistaramóti unglinga í Japan um síðustu helgi. Þá unnu þær Meistaramót Asíu U19 í júlí síðastliðnum. Irina Hlebko og Ksenia Polikarpova frá Rússlandi er raðað númer tvö en þær eru númer 123 á heimslista.

Íslendingar fá fyrstu röðun í tvíliðaleik karla og tvenndarleig. Í tvíliðaleik karla er Magnúsi Inga Helgasyni og Helga Jóhannessyni raðað númer eitt. Joe Morgan og Nic Strange frá Wales er raðað númer tvö. Númer eitt í tvenndarleik eru Atli Jóhannesson og Snjólaug Jóhannsdóttir og númer tvö Birkir Stein Erlingsson og Þorbjörg Kristinsdóttir.

Smellið hér til að sjá niðurröðun og tímasetningar í Iceland International 2012 mótinu.

Smellið hér til að sjá myndir af fyrri Iceland International mótum.

Mótið hefst klukkan 9 á föstudagmorguninn. Spilað verður til klukkan 18:40 þann dag. Á laugardag hefst keppni klukkan 10 og spilað verður til 13:30. Þá verður gert hlé til klukkan 16:30 en þá hefjast undanúrslit. Úrslitaleikir hefjast klukkan 10 á sunnudag.

Mótið er opið öllum og aðgangur er ókeypis.

 

Skrifað 6. nóvember, 2012
mg