Erfiðir leikir hjá íslensku keppendunum í Evrópukeppninni

Evrópukeppni einstaklinga í badminton hefst í Karlskrona í Svíþjóð á þriðjudaginn. Íslensku keppendurnir verða fjórir talsins, Ragna Ingólfsdóttir í einliðaleik kvenna, Kári Gunnarsson í einliðaleik karla og Magnús Ingi Helgason ásamt Helga Jóhannessyni í tvíliðaleik karla.

Til að öðlast þátttökurétt í keppninni þarf að hafa keppt á tveimur alþjóðlegum mótum á árinu og svo er fjöldatakmarkanir við lýði.

Ragna á fyrsta leik við Tjatana Bikik frá Rússlandi en hún er í 79. sæti heimslistans en Ragna er í því 72 og því má búast við erfiðum leik hjá Rögnu.

Kári keppir fyrsta leik við Yauheni Yakauchuk frá Hvíta-Rússlandi en hann er í 349. sæti heimslistans og Kári á því góðan möguleika á móti honum.

Helgi og Magnús Ingi eiga mjög erfiðan leik í fyrstu umferð en þeir mæta Dönunum Mads Conrad-Petersen og Jonas Rasmussen en þeim er raðað númer tvö inn í tvíliðaleik karla í keppninni. Þeir félagar eru í 17. sæti heimslistans í tvíliðaleik og því má búast við mjög erfiðum leik hjá Helga og Magnúsi Inga.

Peter Gade frá Danmörku er líklegur til að verja titil sinn frá 2010 en honum er raðað númer eitt inn í einliðaleik karla og sömu sögu má segja um löndu hans Tine Baun í einliðaleik kvenna. Baun spilar með sama liði og Tinna Helgadóttir í dönsku deildinni og hún er númer sjö á heimslistanum. Gade er númer fjögur á heimslistanum.


Fyrsti leikur Íslendinganna er leikur Kára, á þriðjudaginn klukkan 11:45. Ragna keppir sama dag klukkan 12:30. Tvíliðaleikur Helga og Magnúsar Inga er á þriðjudaginn klukkan 19:15.

Smellið hér til að sjá niðurröðun og tímasetningar á Evrópukeppni einstaklinga 2012.

Skrifað 13. apríl, 2012
mg