Úrslit á Límtrésmóti KR

Límtrésmót KR var um helgina. Mótið er hluti af Varðarmótaröð Badmintonsambandsins og gefur stig á styrkleikalista. Keppt var í flestum greinum í meistaraflokki, A- flokki og B-flokki en ekki náðist fjöldi í allar greinar.

Í meistaraflokki stóð Egill Guðlaugsson ÍA uppi sem sigurvegari í einliðaleik. Ragnar Harðarson ÍA varð í öðru sæti en hann þurti að gefa úrslitaleikinn. Einliðaleik kvenna sigraði Rakel Jóhannesdóttir TBR eftir sigur á Karitas Ósk Ólafsdóttur TBR 21-15 og 21-18. Tvíliðaleik karla sigruðu Atli Jóhannesson og Einar Óskarsson TBR eftir sigur á Agli og Ragnari ÍA 21-16 og 21-15. Í tvíliðaleik kvenna sigruðu Karitas Ósk og Snjólaug TBR er þær lögðu Halldóru Elínu Jóhannsdóttur og Þorbjörgu Kristinsdóttur TBR að velli 21-18 og 21-9. Tvenndarleikinn sigurðu Bjarki Stefánsson og Rakel Jóhannesdóttir TBR en þau unnu í úrslitaleiknum Daníel Thomsen og Halldóru Elínu TBR eftir oddalotu 21-17, 17-21 og 21-16.

Í A-flokki sigraði Reynir Guðmundsson KR í einliðaleik karla. Hann vann Vitor Jónasson TBR 21-17 og 21-8. Ekki var spilaður einliðaleikur né tvíliðaleikur kvenna í A-flokki. Tvíliðaleik karla sigruðu Pétur Hemmingsen og Viktor Jónasson TBR eftir sigur á Gisla Birni Heimissyni TBR og Reyni Guðmundssyni KR 21-14 og 21-18. Tvenndarleikur var ekki spilaður í A-flokki.

Helgi Grétar Gunnarsson ÍA sigraði í einliðaleik karla í B-flokki en þetta er fjórða fullorðinsmótið sem hann vinnur í vetur. Hann vann Andra Pál Alfreðsson TBR 21-12 og 21-18. Ekki var keppt í einliða- né tvíliðaleik kvenna í B-flokki og ekki heldur í tvenndarleik. Tvíliðaleik karla unnu Helgi Grétar ÍA og Brynjar Geir Sigurðsson BH en þeir unnu í úrslitaleiknum Davíð Hafsteinsson og Egil Þór Magnússon Aftureldingu 21-11 og 21-16.

Smellið hér til að sjá fleiri úrslit á Límtrésmóti KR.

Síðasta mót Varðarmótaraðar BSÍ verður Meistaramót Íslands, helgina 30. mars - 1. apríl í TBR húsunum við Gnoðarvog. Síðasti skráningardagur í mótið er á morgun, miðvikudaginn 21. mars.

Skrifađ 20. mars, 2012
mg