Nýr heimslisti - Ragna fellur um fimm sæti

Alþjóða badmintonsambandið gaf út nýjan heimslista í dag. Íslandsmeistarinn Ragna Ingólfsdóttir hefur fallið um fimm sæti síðan í síðustu viku og er nú númer 54 á heimslistanum en númer 19 ef aðeins eru skoðaðir leikmenn frá Evrópu.

Ástæðan fyrir þessu falli Rögnu síðustu tvær vikur er að bæði Ungverska Opna og Iceland Express International gefa færri stig í ár heldur en í fyrra vegna breytinga á stigakerfi. Einnig spilar inní að Rögnu gekk mjög vel á Opna Norska í fyrra þar sem hún var í undanúrslitum og fékk fyrir það 2100 stig en hún tók ekki þátt í mótinu í ár.

Næstu mót Rögnu eru í Wales 29.nóv-2.des og Rússland 5.-9.des. Með því að komast í a.m.k. undanúrslit í Wales og aðra umferð í Rússlandi fær Ragna fleiri stig en hún er með nú og ætti því að fara upp listann aftur. Athuga ber þó að aðrir leikmenn eru líka að færast upp og niður listann því hverja helgi fara fram nokkur mót sem hafa áhrif á hann.

Nokkrir aðrir Íslendingar eru á heimslistanum en staða þeirra er varla marktæk þar sem að á bakvið stig þeirra eru aðeins tvö alþjóðleg mót. Heimslistinn í badminton er þannig gerður að alltaf er gert ráð fyrir tíu mótum á hvern leikmann og hafa því þeir sem eru með fá mót engan möguleika á því að vera á raunhæfum stað miðað við þeirra getu. Þess má þó geta að eftir góðan árangur á Iceland Express mótinu sem fram fór hér á landi um daginn hafa Tinna Helgadóttir og Katrín Atladóttir hækkað töluvert á listanum. Tinna fór upp um 97 sæti úr 384 í 287 og Katrín um 73 sæti úr 386 í 313. Tinna tekur síðan þátt í mótinu í Wales í lok mánaðarins sem vonandi kemur henni enn ofar á listanum.

Hægt er að skoða heimslistann með því að smella hér.

Skrifað 22. nóvember, 2007
ALS