Ragna sigurvegari í einliðaleik kvenna

Ragna Ingólfsdóttir er sigurvegari í einliðaleik kvenna á Iceland International mótinu.

Hún sigraði andstæðing sinn frá Litháen, Akvile Stapusaityte, eftir oddalotu 21-18, 17-21 og 21-17. Ragna er númer 65 á heimslistanum en Stapusaityte er númer 105.

 

Iceland International 2011 - Ragna Ingólfsdóttir og Akvile Stapusaityte

 

Ragna hefur þrisvar áður keppt við þá litháensku og unnið hana í öll skiptin. Þetta er í fimmta skipti sem Ragna vinnur mótið en hún vann árin 2010, 2009, 2007 og 2006. Mótið var ekki haldið árið 2008.

Mótið er hluti af mótaröð Badminton Europe og sigur á mótinu gefur Rögnu 2500 stig á heimslistanum.Heimslistastaðan í byrjun maí 2012 segir til um hverjir hljóta þátttökurétt á Ólympíuleikunum í London næsta sumar.

Nú eru að hefjast síðustu úrslitaleikir mótsins, einliðaleikur karla þar sem Tony Stephenson frá Írlandi mætir Mathias Borg frá Svíþjóð og tvíliðaleikur karla þar sem Magnús Ingi Helgason og Helgi Jóhannesson mæta Thomas Dew-Hattens og Matihas Kany frá Danmörku.

Skrifað 13. nóvember, 2011
mg