Þann 11. mars sl. barst Íþróttadómstól ÍSÍ kæra frá Tennis- og badmintonfélagi Reykjavíkur. Kærði er Badmintonfélag Hafnarfjarðar. Í umræddu máli reynir m.a. á félagaskiptareglur Badmintonsambands Íslands.
Badmintonfélag Hafnarfjarðar skráði tvo erlenda ríkisborgara í annað af tveimur liðum sínum í Meistaradeild í Deildakeppni BSÍ 2020. Var það gert í góðri trú um að það væri löglegt enda kom það skýrt fram í reglum keppninnar og var samþykkt af yfirdómara mótsins. Síðar kom í ljós að reglur Deildakeppninnar innihalda ekki öll þau atriði sem reglur ÍSÍ segja að þær eigi að innihalda og því vafi um það hvaða reglur eigi að gilda. Mikill ágreiningur hefur orðið milli félaganna vegna þessa.
Til að skapa frið í badmintonhreyfingunni á Íslandi hefur Badmintonfélag Hafnarfjarðar því ákveðið að afsala sér Íslandsmeistaratitlinum sem lið félagsins vann í Meistaradeild Deildakeppni BSÍ 2020 og Tennis- og badmintonfélag Reykjavíkur fellur frá kæru vegna málsins.
Í framhaldi af því leggja Badmintonfélag Hafnarfjarðar, Tennis- og badmintonfélag Reykjavíkur til við stjórn Badmintonsambands Íslands að hún ógildi keppnina í Meistarflokki í Deildakeppni BSÍ 2020 og sú keppni falli niður í ár.
Félögin eru jafnframt sammála um að leggja þann ágreining sem upp kom í tengslum við keppnina í ár að baki sér og láta hann ekki hafa áhrif á samstarfið sín á milli og við BSÍ hér eftir. Þá eru félögin tilbúin til að skipa fulltrúa sína í nefnd á vegum BSÍ til að endurskoða reglur um Deildakeppnina og tryggja að þær séu skýrar til að koma í veg fyrir að sá ágreiningur sem varð í keppninni endurtaki sig.
Formaður og stjórn Badmintonsambands Íslands vill þakka Badmintonfélagi Hafnarfjarðar, Tennis- og badmintonfélagi Reykjavíkur fyrir að hafa komist að sameiginlegri niðurstöðu í máli þessu og staðfestir hér með að úrslit í Meistardeild Deildakeppni Íslands falli niður árið 2020. Hafin er vinna við að endurskoða reglur sambandsins í samstarfi við félög og stefnt er að þvi að leggja þær fram til samþykktar á ársþingi Badmintonsambands Íslands í ágúst.
Fyrir hönd stjórnar Badmintonsambands Íslands
Kristján Daníelsson, formaður
Comments