Hinn reynslumikli þjálfari Kenneth Larsen hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari Íslands í badminton. Kenneth tekur til starfa 1. janúar 2023 og mun starfa fyrstu vikurnar við hlið Helga Jóhannessonar, sem hefur verið landsliðsþjálfari síðan 2019.
Kenneth Larsen hefur þjálfað badmintonfólk í 42 ár og er fyrrum landsliðsþjálfari Danmerkur, Íslands, Ítalíu og Grænlands. Hann er með doktorsgráðu í félagssálfræði (Ph.D, Social Psychology) og mastersgráðu í kennslu og þjálfunarfræðum (Master’s degree, Learning and Coaching). Hann er stjórnarmaður í Team Denmark fyrir hönd þjálfara og í stjórn danska badmintonsambandsins þar sem hans ábyrgðarsvið er afreksstarf. Einnig sinnir hann ráðgjöf fyrir Alþjóðabadmintonsambandið og Evrópska badmintonsambandið. Hann var sjálfur spilari á árum áður og hefur orðið bæði danskur meistari og Evrópumeistari með danska landsliðinu.
Kenneth þekkir vel til badmintons á Íslandi þar sem hann var landsliðsþjálfari Íslands 2004-2007 og kveðst hlakka til að vinna aftur með íslenskum þjálfurum og spilurum. Hlutverk Kenneth sem landsliðsþjálfari verður að hafa yfirumsjón með afrekshópum og landsliði. Ásamt því mun hann leggja áherslu á þjálfun, þjálfunaraðferðir og stefnumótun badmintons á Íslandi.
Kenneth kemur til Íslands í aðdraganda RSL Iceland International mótsins, sem haldið verður hér dagana 26.-29. janúar, og tekur þá til við að leggja línur fyrir árið, auk þess sem hann tekur þátt í þjálfun í kringum mótið með Helga Jóhannessyni. Að mótinu loknu lætur Helgi af störfum en segir þó ekki alveg skilið við sambandið þar sem hann mun taka sæti í afreksnefnd.
„Við erum ákaflega ánægð með að fá Kenneth Larsen aftur til starfa hjá okkur. Hann er gríðarlega reynslumikill og menntaður þjálfari og við berum mikið traust til hans,“ segir Kristján Daníelsson, formaður Badmintonsambands Íslands. „Við bjóðum hann velkominn og erum mjög spennt fyrir komandi tímum.“
Nánari upplýsingar:
Kristján Daníelsson, formaður Badmintonsambands Íslands
Netfang: kristjan@badminton.is
Sími: 787 1000
Comments